132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Jafnstöðuafli.

316. mál
[13:31]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Hér hreyfir hv. fyrirspyrjandi, Kristinn H. Gunnarsson, áhugaverðu máli sem hæstv. ráðherra sagði að við yrðum að fara yfir og ræða fordómalaust en mér fannst þó þegar hæstv. ráðherra fór yfir rök með og móti því sem hér er verið að spyrja um þá gætti ákveðinna fordóma í garð þessarar leiðar.

Við vitum náttúrlega að það er mikil skekkja fyrir hendi í vísindunum um fiskinn í sjónum og þar er ekki um nein nákvæmnisvísindi að ræða. Ég held að það væri vel þess virði að velta því fyrir sér í fullri alvöru hvort stærstu nytjastofnar á Íslandsmiðum mundu ekki nýtast okkur betur ef við reyndum að velta fyrir okkur jafnstöðuafla til lengri tíma. Að minnsta kosti held ég að það væri fróðleg æfing að byrja á að prófa slíka áætlun til þriggja ára, þó að hún sé ekki í gildi, til að sjá hvernig hún kemur út miðað við þann afla og ráðleggingar sem gerðar eru á hverju ári, til að sjá hvort sú leið er fær.