132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Jafnstöðuafli.

316. mál
[13:32]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hygg að hugmyndir um jafnstöðuafla séu að nokkru leyti varhugaverðar nú á þessum síðustu og verstu tíðum. Fyrir það fyrsta mundi þetta náttúrlega eyðileggja möguleika ríkisstjórnarflokkanna á að finna hinn svokallaða kosningakvóta sem finnst alltaf á fjögurra ára fresti og sást síðan í Sjallanum á Akureyri í apríl árið 2003.

Í annan stað er ástandið á Íslandsmiðum einfaldlega varhugavert eins og er. Það er mikil óvissa um helstu nytjastofna, til að mynda loðnu sem er týnd og bólar ekkert á og er hugsanlega hrunin. Það er líka mikil óvissa varðandi þorskinn, þorskstofninn sem er í miklum vandræðum eins og við bentum á í umræðum á Alþingi fyrir jól. Það stefnir í að hann dúndrist niður ef áfram verður haldið á sömu braut og undanfarin ár, að heildaraflamagnið dúndrist niður í u.þ.b. 150 þúsund tonn jafnvel áður en þessu kjörtímabili lýkur.

Ég held að það sé miklu nær fyrir okkur þingmenn að ræða hvað við höfum gert rangt á undanförnum árum og hvernig við getum bætt ráð okkar í þeim efnum en að hugleiða svona hugmyndir núna þegar niðursveiflan er í fullum gangi.