132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Jafnstöðuafli.

316. mál
[13:36]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni fyrir framlag þeirra. Mér finnst niðurstaðan, bæði úr svörunum og umræðunni vera sú að málið er áhugavert og það er eðlilegt að menn hugi að því að ræða áfram þær hugmyndir sem voru settar fram á sínum tíma um jafnstöðuafla. Meðal annars vegna þess að árangur okkar af uppbyggingu þorskstofnsins hefur ekki orðið sem skyldi. Fyrsta tillagan um hámarksafla á þorski þegar kvótakerfið var sett á árið 1984 voru 200 þúsund tonn. Á yfirstandandi fiskveiðiári erum við að veiða 198 þúsund tonn þannig að niðurstaðan er sú að okkur hefur ekkert miðað áfram. Það hlýtur að hvetja menn til að velta fyrir sér öllum hugmyndum sem upp hafa komið í þeirri von að úr þeim komi einhver rök eða ábendingar sem menn geta nýtt sér til þess að þróa áfram fiskveiðistjórnun okkar til að ná betri árangri en verið hefur.

Ég er út af fyrir sig sammála því að eðlilegasta og besta leiðin væri auðvitað að fylgja sveiflunum í stofnunum þannig að við gætum gefið út breytilega heildarveiði í stofnunum eftir því hversu sterkir þeir eru á hverjum tíma. En vandinn er sá að þekking okkar á lífríkinu er svo takmörkuð að það er gríðarleg óvissa hjá vísindamönnum okkar í því hver sannleikurinn er á hverjum tíma um hvern og einn stofn. Þess vegna held ég að hugmyndin um jafnstöðuafla eigi fullan rétt á sér og mér fannst ég heyra á röksemdum hæstv. ráðherra þar sem hann dregur fram það sem mælir með þessu að þannig væri líklegra að menn næðu árangri til lengri tíma í að byggja upp viðkomandi fiskstofna, sérstaklega þorskstofninn.