132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Rækjustofninn í Arnarfirði.

354. mál
[13:53]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Það má vera að það sé áhugavert að gera eitthvað sem er órökrétt og þess vegna sé áhugavert að sjá hvað kemur út úr svona tilraun að fóðra fiska í því augnamiði að koma í veg fyrir að þeir éti upp rækjuna. En ég hefði talið miklu réttara að Bílddælingum væri einfaldlega heimilt að veiða þann fisk sem er að éta upp rækjuna þeirra. Hvað er að því? Jú, kerfið er svo heilagt í augum að kvótaflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, að meira að segja þegar fiskur er að éta upp rækjustofna vestur á fjörðum eru menn ekki tilbúnir að fara í þá tilraun að leyfa fólkinu þar að veiða þann fisk heldur er farið í að gera eitthvað sem er algerlega órökrétt og afræningjunum er gefið að éta. Þetta er fáheyrt og í rauninni algjör vitleysa.

En það er annað sem þetta dæmi sýnir okkur, það er verið að meta rækjustofninn í afmörkuðum firði, þetta er ekki fiskur sem syndir langan veg, en þrátt fyrir að við séum með afmarkaðan fjörð og rannsóknarmenn sem koma og mæla fiskinn og gefa út leyfi og menn nái síðan ekki að fiska upp í þann kvóta sem gefinn er út, hverfur rækjan eins og dögg fyrir sólu og menn hætta að veiða. Þessi nýtingarstefna er della og ég trúi ekki öðru en að menn fari að skoða þetta dæmi vestur á fjörðum sem er afmarkað eins og áður segir í Arnarfirði, menn hljóta að skoða það með gagnrýnum hætti að þetta kerfi getur ekki verið svo heilagt að það megi rústa hverju þorpinu á fætur öðru.