132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Staða íslensks skipaiðnaðar.

323. mál
[13:57]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Í fyrra fór hér fram umræða um framtíð íslenska skipasmíðaiðnaðarins. Hún fór m.a. fram í tengslum við það að stjórnvöld sendu varðskip til viðgerða úr landi, alla leið til Póllands, þrátt fyrir að sambærilegt tilboð hefði komið frá Slippstöðinni á Akureyri í viðgerð á skipunum. Það er fullvíst og kom reyndar fram í svari við fyrirspurn sem ég lagði fyrir hæstv. dómsmálaráðherra að kostnaðurinn hefði verið svipaður og hefði örugglega verið þjóðhagslega miklu hagkvæmara að vinna verkið hér heima á Akureyri en að senda það úr landi.

Í þessum umræðum fullyrti hæstv. byggðamála- og iðnaðarráðherra að leggja ætti fram tillögu fyrir ríkisstjórnina frá nefnd sem skipuð var og hafði nýlokið við gerð skýrslu um samkeppnishæfni skipasmíðaiðnaðarins. Það er ekki fyrsta skýrslan sem gerð verið hefur á vegum stjórnvalda á undanförnum árum heldur eru þær orðnar nokkrar, hér er bunki af skýrslum, en lítið virðist vera um efndir á því að framkvæma það sem lofað hefur verið að gera. Í þessari umræðu fullyrti hæstv. byggðamála- og iðnaðarráðherra að það ætti að fylgja þessum tillögum fast eftir í ríkisstjórninni. Tillögurnar voru lagðar fram í fimm liðum. Það voru tvær megintillögur. Annars vegar að hækka endurgreiðslur af aðflutningsgjöldum og hins vegar að fara sömu leið og Evrópusambandið, að skilgreina skipasmíðaiðnaðinn sem hátækniiðnað og þá mætti hækka styrki allt upp í 20% ef þeim væri varið til hönnunar og hátækni í iðnaðinum, en þá þyrfti auðvitað að tryggja að styrkirnir væru notaðir til þeirra verka. Það hefur ekkert gerst og því hef ég beint þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra hvort ekki eigi eitthvað að fara að gerast. En það sem hefur gerst á undanförnum árum í valdatíð Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, það var reyndar áður en að núverandi hæstv. iðnaðarráðherra kom til valda, er að samkeppnisstaðan var skert. Menn lækkuðu endurgreiðsluhlutfallið af aðflutningsgjöldum úr 6,5% í 4,5% og það eru afrek ríkisstjórnarinnar. Ég hefði talið tímabært að huga að því hvað eigi að verða um þennan iðnað því það blasir við m.a. í mínu kjördæmi, á Akranesi, að menn vilja fá einhver svör í skipasmíðastöðinni þar og ekki síður á Akureyri, í kjördæmi hæstv. iðnaðarráðherra. Það væri fróðlegt að frétta af því hvort einungis eigi að gera þessa skýrslu eða hvort við megum búast við einhverjum aðgerðum.