132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Staða íslensks skipaiðnaðar.

323. mál
[14:06]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég verð eiginlega að taka undir orð hv. þm. Hlyns Hallssonar. Í hvaða samfélagi er hæstv. iðnaðarráðherra eiginlega? (Iðnrrh.: Í hvaða landi eru Vinstri grænir?) Vinstri grænir eru nefnilega á Íslandi. Það er þannig. En þegar ráðherrann talar um að stóriðjuframkvæmdirnar fyrir austan hafi komið skipasmíðaiðnaðinum á Akureyri sérstaklega vel, þá ætti hæstv. ráðherra að kynna það fyrir fyrrverandi kjósendum sínum á Akureyri sem munu vonandi aldrei kjósa hana aftur á þing.

Frú forseti. Ráðherrann svaraði ekki þeim spurningum sem beint var til hennar af hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni. Hvað hefur iðnaðarráðherra gert til að framkvæma þau atriði sem aðilar bæði af hálfu ráðuneytisins og af hálfu samtaka atvinnulífsins og iðnaðarins voru sammála um að þyrfti að gera til að bæta samkeppnisstöðu skipasmíðaiðnaðarins? Hvað hefur verið gert? Álglýja iðnaðarráðherra og trú á að álverksmiðjur bjargi skipasmíðaiðnaðinum á Íslandi er alveg með endemum. Hvað hefur ráðherra gert til að framfylgja þeim tillögum (Forseti hringir.) sem lagðar voru til til að styrkja skipasmíðaiðnaðinn á Íslandi og gera hann samkeppnishæfan? (Forseti hringir.) Það er það sem spurt er um, frú forseti.

(Forseti (JBjart): Af tilefni ræðu hv. þingmanns Jóns Bjarnasonar vill forseti minna þingmenn á að virða tímamörk. Tímamörk eru einungis ein mínúta í stuttum athugasemdum.)