132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Staða íslensks skipaiðnaðar.

323. mál
[14:08]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það, ég hélt að hæstv. iðnaðarráðherra væri stödd í einhverju öðru landi núna við þann lestur á þeim stíl sem hún hafði með sér úr iðnaðarráðuneytinu. Hvílík öfugmæli. Bæta starfsskilyrði íslensks iðnaðar. Enda svo á að skýra okkur enn einu sinni frá því að starfshópurinn um íslenskan skipaiðnað og samkeppnishæfni iðnaðar á Íslandi sé enn að störfum og eigi mikið eftir vegna þess að málið sé flókið. Þvílíkt og annað eins. Hæstv. ráðherra fær falleinkunn fyrir störf sín að iðnaðarmálum hvað varðar skipaiðnaðinn á Íslandi.

Það er annar iðnaður sem er að leggja upp laupana núna um þessar mundir og verður líka rós undir öfugum formerkjum í hnappagat hæstv. ráðherra. Það er íslenskur skinnaiðnaður. Hvað hefur hæstv. ráðherra gert í því? Akkúrat ekki neitt. Á næstu vikum er verið að loka á Akureyri vinnustað sem var einu sinni jafnvel 80–100 manna vinnustaður, er núna tæplega 20 manns. Þar er verið að leggja niður þá starfsemi vegna þess að samkeppnisgrunnur iðnaðarins er ekki fyrir hendi. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Iðnaðarráðherra fær falleinkunn í flestum þessum málaflokkum að mínu mati.