132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Staða íslensks skipaiðnaðar.

323. mál
[14:10]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Skipasmíðaiðnaðurinn á Íslandi er mikil sorgarsaga og hún er ekki að byrja núna. Hún byrjaði í kringum 1990 og jafnvel fyrir þann tíma. Síðan hafa ríkisstjórnir og iðnaðarráðherrar allar götur fram á þennan dag gjörsamlega brugðist í því að tryggja þeim iðnaði einhverja framtíð. Þannig er það. Hæstv. iðnaðarráðherra sem nú situr hefur ekki staðið sig betur en hinir. En það er lítið orðið eftir af skipasmíðaiðnaðinum. Hann er bara búinn. Það er verið að smíða nokkrar trillur hérna í landinu, annað er það nú ekki. Örfá fyrirtæki eru eftir í þessum iðnaði og þau eru að gera eitthvað allt annað en að vinna í skipasmíðum. Þannig er það. Hæstv. ráðherra ætti að spara sér löngu ræðurnar um hvað sé verið að skoða og segja mönnum hvað hún ætlar að gera. Og með hvaða hætti hún telur að það geti gagnast skipasmíðaiðnaðinum. Fram að þessu hefur allan vilja skort hjá yfirvöldum í landinu til að styðja þennan iðnað. (Forseti hringir.) Þeir hafa hins vegar haft nógan skilning á því (Forseti hringir.) að framleiða þurfi kindakjöt og mjólk í landinu.