132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Staða íslensks skipaiðnaðar.

323. mál
[14:14]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég ætti náttúrlega að vera mjög hnuggin og döpur þegar ég kem hér upp þegar fimm til tíu hv. þingmenn eru búnir að koma hér upp og hundskamma mig. En einhverra hluta vegna er það alls ekki svo. Það er kannski vegna þess að hv. þingmenn hafa verið svo ótrúlega ómálefnalegir í málflutningi sínum og farið með svo mikla vitleysu að mér er eiginlega vandi á höndum hvernig ég á að nota þennan litla tíma sem ég hef til að bregðast við öllum þeim ósköpum. (Gripið fram í.)

Það sem ég ætla fyrst að segja er að ég ber enga ábyrgð á því að varðskipin fóru úr landi. Ég er margbúin að segja hv. þingmönnum það. (Gripið fram í: Ríkisstjórnin …) Hæstv. forseti. Hver hefur orðið hérna? (Gripið fram í: Af hverju fór Björn út?) Það vill svo til að í ríkisstjórn Íslands fer bara einn ráðherra með hvert málefni og hvern málaflokk og ég fer ekki með þann málaflokk sem hér um ræðir. Það er löngu búið að koma fram og ég hef reyndar sagt það opinberlega að ég tel að grundvöllur hafi verið til að gera við þessi skip á Akureyri.

Síðan er það sem kom út úr þeirri vinnu sem fór fram m.a. á mínum vegum um hvaða aðgerðir væru líklegar til að geta borið árangur í sambandi við skipasmíðaiðnaðinn. Það sem þar var efst á blaði var að hækka endurgreiðslur á aðflutningsgjöldum úr 4,5 í 6%. Það er þetta sem ég sagði í lok ræðu minnar áðan að er til umfjöllunar innan fjármálaráðuneytisins sem fer með tollamál. Það er ekki langt þangað til vona ég að svör berist um hvernig farið verður með þetta mál. Þetta er stærsta málið.

Svo fara hv. þingmenn að tala um skinnaiðnað og það náttúrlega kemur augljóslega fram ágreiningur innan Samfylkingarinnar því einn þingmaður vill setja peninga úr ríkissjóði í skinnaiðnaðinn. Hinn talar um að allir peningar fari í kindakjöt og mjólk. Landbúnaðarstefnan er því út og suður þar.

Síðan er það raforkuverðið, að það hafi hækkað. Það hefur lækkað. Ég ætla að biðja hv. þingmenn að átta sig á því (Forseti hringir.) að það hefur almennt lækkað. Að minnsta kosti (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) til fyrirtækja á landsbyggðinni. (Gripið fram í.)