132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Atvinnumál á Ísafirði.

339. mál
[14:25]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Það er dálítið skemmtilegt að þau flokkssystkin hv. þingmaður Kristinn H. Gunnarsson og hæstv. iðnaðarráðherra og reyndar byggðamálaráðherra skuli vera hér saman í ræðustól að spjalla um atvinnumál á Ísafirði. En þetta leiðir huga minn að öðru máli vegna þess að Síminn, eða þetta fyrirtæki Já, er auðvitað orðið einkafyrirtæki og ríkisstjórnin getur þess vegna fríað sig allri ábyrgð á að störfum sé fækkað á Ísafirði. En það er annað mál hér fyrir þinginu, það er að háeffa Ríkisútvarpið. Þess vegna hef ég miklar áhyggjur af því í augnablikinu hvað verði gert þar á bæ. Verður dregið úr starfsemi Ríkisútvarpsins á Ísafirði? Eða Akureyri eða Egilsstöðum? Verður einhver af þessum stöðvum lögð niður? Ég mundi óska þess að hv. þingmaður hefði meiri áhyggjur af því sérstaklega vegna þess að Framsóknarflokkurinn, stór hluti hans, (Forseti hringir.) er einmitt á móti því að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið.