132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Sjófuglar.

338. mál
[14:45]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Fréttir í sumar og haust bentu til þess að sjófuglastofnar við landið væru enn í þeirri lægð sem þeir voru í í fyrra eða að hruni komnir. Auk stuttnefju og langvíu og fleiri svartfugla sem rætt var um í fyrra eru tíðindi þessa vetrar, hausts og síðasta sumars þau að hinn sérstaki vinur okkar krían hefur farið halloka og orðið fyrir skakkaföllum. Varp kríunnar er talið hafa mistekist víðast um land.

Við ræddum þetta í fyrra þegar hæstv. umhverfisráðherra svaraði fyrirspurn minni um svipað efni og gerði með glæsibrag. Þá ræddum við um að hrun af þessu tagi þyrfti ekki að skaða stofninn þótt einstaklingar hans verði fyrir barðinu á því eða séu í lægð eitt, tvö eða þrjú tímabil. En til langframa komast stofnarnir í hættu og þess vegna þurfum við að vita nákvæmlega hvað er í gangi til að geta brugðist við ef okkur er það unnt.

Þessi tíðindi gilda ekki líkt og var í fyrra bara um Ísland heldur eru sömu fréttir sagðar með tilbrigðum á öllu svæðinu við norðanvert Atlantshaf og raunar inn á Norðursjó. Í sumar og í haust mátti sjá töluverða umræðu í Bretlandi, t.d. á BBC-vefnum, um breytingar á stofnum sjófugla. Þar töluðu menn um að annars vegar væru loftslagsbreytingar mjög skýrar, sögðu blaðamenn og fræðimenn sem til var vitnað, sem yllu þessu en einnig gætu fiskveiðar átt hlut að máli. Við ræddum líka um það í fyrra, um hvor orsökin væri á bak við þetta eða báðar. En auðvitað kemur líka til greina, sem við verðum að muna, að í einstökum tilvikum, svo sem eins og um kríuna, geta ráðið tilviljunarbundnar eða lítt skýranlegar ástæður sem náttúran ósköp einfaldlega svarar okkur ekki um.

Ég hef þess vegna lagt fram fyrirspurn sem liggur fyrir á þingskjali. Ég spyr sérstaklega um tillögur sem hæstv. ráðherra ætlaði að fá í fyrra um samvinnu Náttúrufræðistofnunar, Hafrannsóknastofnunar og Háskóla Íslands á högum sjófugla.