132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Sjófuglar.

338. mál
[14:56]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka ágæt svör ráðherrans og góðar umræður að auki. Það kemur kannski ekki á óvart að þingmanni þyki hægt ganga. Í fyrra var svarað með því ágæta svari að tengja ætti saman þessar þrjár rannsóknarstöðvar. Nú hefur það að vísu gerst að þær hafa verið tengdar saman en rannsóknir eru ekki hafnar og fjárhagsgrundvöllur þeirra ekki ljós. Við skulum vona að það gangi vel.

Ég tek undir með síðasta hv. ræðumanni um að rannsóknir á þessu atriði séu mjög merkilegar. Við þurfum að fá úr því skorið hvað af þessu kann að stafa af veiðum okkar í sjó og hvað má rekja til loftslagsbreytinga. Það er augljóst að vistkerfið, eins og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson sagði, er ekki í jafnvægi. Hvort það er tímabundið vitum við ekki. Við vitum af kreppum í sjófuglastofnum langt aftur í tímum. Mig minnir að umhverfisráðherra hafi í fyrra nefnt árið 1327 í annálum frá fræðimönnum sínum. Það kann að vera um það að ræða. En hitt er sennilegra að þetta séu annars vegar áhrif sjávarútvegs okkar og hins vegar loftslagsbreytinganna.

Ég vil segja að lokum að miklu máli skiptir að rjúfa eða taka niður þá múra sem hér hafa spillt fyrir á milli rannsókna í sjó og rannsókna á landi. Sjófuglarnir teljast landmegin og heyra undir umhverfisráðherra meðan fæða þeirra heyrir undir sjávarútvegsráðherra. Fæðan er ekki rannsökuð nema svo vilji til að Hafrannsóknastofnun skipti sér af henni vegna þess að hún varði nytjafiska. Hafrannsóknastofnun hefur hingað til aðeins rannsakað það sem kemur nytjafiskum við. Ég fullyrði að það er m.a. ástæðan fyrir því að við vitum jafnlítið um vistkerfi sjávar við Ísland og raun ber vitni. Ég vona að úr þessu verði bætt.