132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Sjófuglar.

338. mál
[14:58]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka þessa ágætu umræðu. Ég vil líka nefna það sérstaklega að staðsetning fuglabjarga, þar sem er auðugt fuglavarp, er engin tilviljun. Þar eru auðvitað hentugir varpstaðir fyrir fuglana nálægt gjöfulum fiskimiðum. Þess vegna geta tiltölulega litlar breytingar á dreifingu í fæðunni valdið því að sjófuglabyggðir leggist af. Sjófuglar eru líka áberandi og það er fremur auðvelt að telja þá ef við berum þá saman við aðrar lífverur. Ég tel að það væri merkilegt innlegg í rannsóknir. Betri þekking á samspili átu og umhverfisþátta fyrir sjófuglastofna hér á landi er nauðsynleg til að skýra og fylgjast með þeim breytingum sem geta orðið.

Mér fannst líka mjög góð ábending sem hv. þm. Mörður Árnason fram með, þ.e. að nauðsynlegt væri að brjóta niður múra á milli fræðigreina og stofnana. Ég tel að það sé bráðnauðsynlegt þannig að þau tæki, sem við höfum til að skoða þetta eins vel ofan í kjölinn og hægt er, vinni saman, þær stofnanir vinni saman sem stunda þessar rannsóknir. Samspil tegundanna þarf að rannsaka eins vel og kostur er. Það gæti þá leitt til þess að nota megi, eins og ég nefndi hér fyrr í ræðu minni, t.d. tölur um fjölda og rannsóknir á afkomu sjófugla sem vísi um ástand hafsins.