132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Undirbúningur nýrrar fangelsisbyggingar.

199. mál
[15:08]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu um þennan nauðsynlega málaflokk. Ég tel að það eigi kannski ekki að leggja megináherslu á það hvar þetta fangelsi er staðsett heldur fyrst og fremst á aðbúnað og þá sérstaklega heimsóknaraðstöðu fólks. Ég tel að það sé mjög mikilvægt þannig að ekki rofni tengsl sem fangar hafa við fjölskyldu sína. Mér finnst það skipta miklu máli. Ég hef ekki orðið var við annað t.d. en að menn sækist eftir því að fara á Kvíabryggju þó svo það fangelsi sé ekki akkúrat staðsett í höfuðborginni. Það kemur alveg eins til greina. Mér finnst því að menn eigi ekki að mikla fyrir sér þó þeir keyri austur fyrir fjall með gæsluvarðhaldsfanga. Þetta er ekkert sem skiptir höfuðmáli í þessum málaflokki.