132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Undirbúningur nýrrar fangelsisbyggingar.

199. mál
[15:09]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að þessi umræða er tekin upp í fyrirspurnatíma af hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur. Það er allt of lítið um að við ræðum um fangelsismál eða stefnu í fangelsismálum á Alþingi.

Ég vildi beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort búið sé að fá áframhaldandi undanþágu fyrir Hegningarhúsið við Skólavörðustíg, hvort það sé frágengið vegna þess að undanþágan rennur út í næsta mánuði. Ég tel að það hljóti að vera erfitt að fá framlengingu á undanþágum þegar ekki er ljóst hvenær á að byrja á fangelsinu á Hólmsheiði. Svo vil ég spyrja um hvað ráðherra hyggst fyrir varðandi jafnræði kynja í úrræðum í fangelsismálum. Konur eiga ekki möguleika á opnu fangelsi eins og á Kvíabryggju og það eru engir möguleikar til að meðhöndla konur sem eiga við erfiðar geðraskanir að stríða, þ.e. í Kópavogi þó að það sé gert í dag.