132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Undirbúningur nýrrar fangelsisbyggingar.

199. mál
[15:13]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Frú forseti. Ég þakka þessar ágætu umræður. Ég hef ekki tíma til að svara öllu sem fram hefur komið. En varðandi Hegningarhúsið við Skólavörðustíg þá er þetta náttúrlega ekki í fyrsta sinn sem það mál er rætt hér. Ég hef hins vegar kynnst því að það er síður en svo skortur á áhuga fanga að vera í þessu hegningarhúsi. Þeim finnst það ekki þannig húsnæði að þeir vilji ekki vera þar. Þvert á móti held ég að ekki komist allir þar að sem vilja oft dveljast í húsinu þannig að menn hafa mismunandi viðhorf til þessa húss. Svo er talað um að það þurfi að tæma það til þess að menningarstarfsemi geti verið í húsinu. Gott og vel, en eins og ég hef kynnt þá störfum við samkvæmt áætlun. Það er verið að vinna að byggingu nýs fangelsis í samræmi við reglur um opinberar framkvæmdir og ég sé fyrir mér að því máli ljúki að sjálfsögðu þótt ég sé ekki tilbúinn að nefna hér einstakar dagsetningar.

Varðandi áframhaldandi undanþágu á Skólavörðustíg þá ræddi ég þetta fyrir nokkrum missirum við yfirvöld í Reykjavíkurborg og ég held að það sé gagnkvæmur skilningur á því að þessi starfsemi haldi áfram. Komið hafa athugasemdir eins og við vitum frá mannréttindafulltrúum sem hafa skoðað þetta og þetta er álitamál sem við erum alltaf að fjalla um og það er reynt að leitast við að hafa aðbúnað í fangelsinu við Skólavörðustíg eins góðan og frekast er kostur.

Varðandi jafnræði kynjanna þá er litið til þess í þeirri áætlun sem við höfum lagt fram og þingmenn hafa rætt og ég segi að fangelsismál hafa verið meira til umræðu hér á þingi undanfarin missiri en oft áður. (MF: Það er rétt.)