132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Kynferðisafbrotamál.

271. mál
[15:15]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Fram kom í nóvember sl. að umfang mála úr barnaverndar- og réttarvörslukerfinu sem snerta kynferðisbrot gegn börnum hafi nær tvöfaldast á tíu árum á sama tíma og sakfellingum fjölgaði aðeins um eina. Málunum fjölgaði úr 123 að meðaltali á árunum 1995–1997 í að meðaltali 222 mál á árunum 2002–2004 en sakfellingum fjölgaði hins vegar einungis um eina á þessu sama tíu ára tímabili eða úr 16 í 17.

Á þessu verður að leita skýringa því það er fullkomlega óeðlilegt og hreinlega eitthvað að þegar sakfellingum fjölgar aðeins um eina á sama tíma og málum hefur fjölgað um helming. Ástæða er til að taka fram að þetta eru mál sem barnaverndaryfirvöld hafa til meðferðar en ekki tilkynningar um meint kynferðisbrot en þá er búið að sía út mál sem ekki var talin ástæða til að kanna frekar. Sjö ár eru liðin frá því að Barnahús tók til starfa sem gjörbreytti aðstöðu barna sem verða fyrir kynferðisbrotum. Forstjóri Barnaverndarstofu hefur haldið því fram að breytingin sem gerð var á lögunum 1999 um meðferð opinberra mála hafi verið afar óheppileg fyrir framgang mála í réttarvörslukerfinu. Í Barnahúsi eru það ólíkir fagaðilar, barnaverndarstarfsmenn ásamt lögreglu, sem sameiginlega skoða þessi mál sem gafst mjög vel þar sem sérfræðingar Barnahúss taka rannsóknarviðtöl við börnin án þess að fulltrúar réttarvörslukerfisins séu viðstaddir.

Áhrifin af lagabreytingunni sem gerð var 1999 eru þau að meiri hluti skýrslutaka af börnum fer fram í dómshúsi en ekki lengur í Barnahúsi sem gerir lögreglu og ákværuvaldi erfiðara um vik en meðan skýrslutakan fór fram í Barnahúsi sem er auðvitað miklu manneskjulegri meðferð á barni sem lent hefur í svo hræðilegum glæp sem kynferðisbrot gegn barni er. Í dómshúsi er frumskýrslugerð gerð að dómsathöfn og í því felst að verjandi sakbornings og jafnvel sakborningurinn sjálfur hefur rétt til að vera viðstaddur frumskýrslutöku af barni. Forstjóri Barnaverndarstofu hefur lýst því þannig að með þessu sé ekki jafnræði með ákæruvaldi og sakborningi en yfirheyrslan yfir sakborningi fer þá fyrst fram eftir að frumskýrslutöku yfir barni er lokið, sem er afar óeðlilegt. Rannsókn sem gerð hefur verið í Svíþjóð sýnir að þeim mun meira sem sakborningur veit um gögn lögreglu á hann auðveldara með að blekkja og þegar sakborningur er viðstaddur skýrslutöku yfir barni veit hann nákvæmlega hvaða sönnunargögn lögreglan hefur og getur jafnvel hagrætt sönnunargögnum.

Ég hef því lagt nokkrar spurningar fyrir ráðherra sem lúta að því sem ég hef hér lýst, m.a. það hvort ráðherra telji eðlilegt að á sama tíma og aðrar þjóðir, t.d. Svíar og Norðmenn, eru að koma á fót Barnahúsi að íslenskri fyrirmynd hefur sú þróun átt sér stað hér að meiri hluti skýrslna af börnum eru teknar í dómshúsi og minni hluti í Barnahúsi, sem ég tel að gangi fullkomlega gegn hagsmunum barnsins og því eigi að breyta. Fyrirspurnirnar lúta í fyrsta lagi að jafnræði sem ég hér nefni að ekki sé með ákæruvaldi og sakborningi og hver sé skoðun ráðherrans á því. Í öðru lagi er spurt um Barnahúsið. Í þriðja lagi er spurt hvort ráðherra telji ástæðu til að breyta lögum um meðferð opinberra mála. Og í fjórða lagi hvaða skýringu ráðherra telji vera á því að þótt (Forseti hringir.) kynferðisbrotum hafi fjölgað verulega á síðustu árum hefur sakfellingum aðeins fjölgað um eina.