132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Kynferðisafbrotamál.

271. mál
[15:24]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get ekki stillt mig um að koma með athugasemd um lánleysi ríkisstjórnarinnar varðandi þau þýðingarmiklu mál sem hér er hreyft en það er litið til Íslands erlendis frá hvað varðar Barnahúsið, sem var fjöður í hattinn fyrir ríkisstjórnina á sínum tíma, en það hefur allt verið látið reka á reiðanum með aðstöðuna í Barnahúsi síðan. Ég hlýt að varpa því inn í umræðuna, þó að ég geri ekki ráð fyrir því að hæstv. ráðherra svari því, hver ber ábyrgðina á því að læknisrannsóknir í Barnahúsi á börnum sem sætt höfðu kynferðisofbeldi lágu niðri í nærri eitt og hálft ár vegna kostnaðar? Heilbrigðisráðuneytið eða félagsmálaráðuneytið? Mér er kunnugt um að Barnaverndarstofa gerði allt sem hún gat til að upplýsa þessi ráðuneyti. Og svo hitt sem virðist ekki hafa náð í gegnum umræðuna: Er það sæmandi að verðleggja slíkar rannsóknir á 5 milljónir kr. sem þýðir u.þ.b. 200 þúsund á barn? Hvað er eiginlega að okkur við meðferð þessara mála?