132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Kynferðisafbrotamál.

271. mál
[15:30]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Vissulega tel ég þetta alvarleg mál og vissulega vil ég að lögregluyfirvöld og aðrir hafi þau tæki sem nauðsynleg eru til að taka á þessum málum, upplýsa þau og leiða þau til lykta og að þeir sem sekir eru hljóti dóm. Ég skil ekki hvernig hv. þingmanni dettur í hug að ég hafi aðra skoðun á því. Það sem ég er hins vegar hér að gera er að svara fyrirspurnum þingmannsins sem hún leggur fyrir mig og þar vitna ég í gildandi landslög sem Alþingi samþykkti árið 1999 um þetta, sem eru talin vera í samræmi við mannréttindasáttmála Evrópu hvort sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, eða einhverjir aðrir, skýrir hann á þann veg sem hún gerði. Það er talið að okkur beri að hafa lög okkar svona til þess að það sé í samræmi við 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og verða menn að líta til þess sáttmála hvort sem það kemur þeim vel eða illa í einstökum málum. Það verður að skoða sáttmálann og það sem í honum stendur um réttarstöðu fólks.

Varðandi þá tölfræði sem ég vitnaði til er þetta tölfræði annars vegar frá ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra en hv. þingmaður hefur ekki nefnt neina tölfræði máli sínu til stuðnings. Hún hefur ekki komið með nein gögn sem rökstyðja þær niðurstöður sem lesa má út úr þeim fyrirspurnum sem fyrir mig voru lagðar. (Gripið fram í.) Þetta eru getgátur og einhverjar ályktanir dregnar af einhverju sem ekki er sýnt fram á nægilega vel til að ég geti tekið afstöðu til þess hvort það er rétt eða rangt. Það er ekkert sem bendir mér á það að þróunin sé á þann veg sem hv. þingmaður (Gripið fram í.) segir.

Svíar og Norðmenn líta til Barnahúss og ég fagna því. En við höfum okkar lög um að dómarar ráði því hvar athafnir þeirra fara fram.