132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Afleysingar presta.

308. mál
[15:33]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Nýlega kom í ljós að allir starfandi prestar fá aukalega 1,6 mánaðarlaun árlega sem fastar greiðslur fyrir afleysingaþjónsutu og hefur svo verið um eitthvert árabil. Er þeim ætlað að leysa hver annan af á vikulegum frídögum, sumarleyfum og í veikindum eftir því sem ég kemst næst.

Starfsumhverfi presta er mjög mismunandi og skipulagið gamalt og gamaldags. Þörf fyrir prest á tilteknum svæðum hefur ekki verið endurmetið þrátt fyrir miklar búsetubreytingar á Íslandi og ekkert samræmi er í mannfjölda á bak við hvert prestsembætti. Sem dæmi má nefna Skagafjörð þar sem prestar eru fimm og einn biskup í fjögur þúsund manna samfélagi. Einn prestanna þjónar tæplega þrjú þúsund manns af þessari heild en rúmlega þúsund skiptast á fjóra presta. Ég tek fram að samgöngur innan Skagafjarðar eru góðar. Ég geri ráð fyrir að ástandið sé svipað annars staðar.

Í Reykjavík eru aftur á móti tugir þúsunda á bak við hvern prest. Mér er kunnugt um að margir ungir guðfræðingar vígjast og hefja starfsferil sinn með afleysingaþjónustu þegar prestur fer í námsleyfi eða er veikur. Örugglega er víða hentugt að starfandi prestar leysi hver annan af en annars staðar sennilega ekki. Mér er spurn hve almennar afleysingar þeirra séu í raun og hversu vel þetta fyrirkomulag komi til móts við raunverulegar þarfir þeirra sem flestum þjóna.

Þarna stöndum við einnig frammi fyrir spurningu um jafnræði meðal presta ef þessa vinnuframlags presta er þörf sums staðar en annars staðar ekki, ef sumir prestar vinna fyrir þessum launum en aðrir ekki.

Ég spyr því hæstv. dómsmálaráðherra:

1. Hversu margir prestar, sem ekki höfðu fast prestsembætti, sinntu afleysingaþjónustu fyrir starfandi presta sl. fimm ár, skipt eftir árum?

2. Hvernig skiptist afleysingaþjónustan á

a. námsleyfi,

b. veikindaleyfi,

c. annað?

3. Er haldin skrá yfir afleysingar presta hvers fyrir annan? Ef svo er, hver heldur þá skrá?

4. Hvað ræður því hvort sérstakur afleysingaprestur er ráðinn til starfa eða annar starfandi prestur tekur að sér afleysingu, samanber fastar greiðslur til allra presta vegna afleysinga í sumarleyfum og á vikulegum frídögum?