132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Háskólanám sem stundað er í fjarnámi.

183. mál
[15:40]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra hvort ráðherrann hyggist bregðast við fjárhagslegum vanda fræðslumiðstöðvanna á Suðurlandi, Vesturlandi, Suðurnesjum og reyndar Norðurlandi vestra líka, sem halda úti háskólanámi í fjarnámi sem allt stefnir í að leggist af eða verði í miklum ógöngum ef svo fer fram sem horfir. Mikil aðsókn er í fjarnámið í gegnum fræðslumiðstöðvarnar sem í grunninn hafa það hlutverk. Eins og fram kemur í samningi um símenntunarmiðstöðvar eru framlög ríkisins fyrst og fremst til þess að standa undir grunnstarfsemi stöðvanna, fjárveitingu upp á 9–10 milljónir á ári skilgreint sem grunnframlög og til grunnverkefna og tekur ekki til fjarnámsins á háskólastigi og þeirrar þjónustu sem símenntunarmiðstöðvarnar veita í því samhengi.

Mikil aðsókn er að þessu námi. Ábyrgðin er að sjálfsögðu ríkisins og ríkið á að standa undir henni en þróun mála hefur verið sú að ekki hefur tekist samkomulag á milli símenntunarmiðstöðvanna og hins opinbera um fjármögnun þeirra. Reiknað var út hjá símenntunarmiðstöðvunum að þessi þjónusta í fyrra hafi kostað þær á bilinu 10–12 milljónir hver. Því er um veruleg framlög að ræða.

Núna á sér stað ákveðin mismunun á milli símenntunar- og fræðslumiðstöðvanna eftir því hvar þær eru staðsettar á landinu. Stofnanir á Suðurlandi, Vesturlandi og Norðurlandi vestra fá t.d. ekki hliðstæð framlög til uppbyggingar og miðlunar háskólanáms og Vestfirðir og Austurland. Nú síðast ákváðu t.d. Samtök sunnlenskra sveitarfélaga að verja 80 milljónum kr. til uppbyggingar háskólanáms á Suðurlandi til að koma í veg fyrir að háskólanámið og fjarnámsþjónusta Fræðslunetsins legðist hreinlega af. Markmiðið er að sjálfsögðu að auka framboð á háskólanámi á Suðurlandi og koma í veg fyrir að illa fari. En ábyrgðin er ríkisins og það þýðir engan undanslátt í málinu. Þetta eru merkilegar menntastofnanir sem ollu ákveðinni byltingu fyrir byggðirnar og sérstaklega í ljósi þess að hlutfall háskólamenntaðra úti á landi er mun lægra en á höfuðborgarsvæðinu, eins og fram kom í svari við fyrirspurn Önnu Kristínar Gunnarsdóttur fyrir áramót. Það hlutfall er verulega óhagsætt landsbyggðinni.

Þessar símenntunarstöðvar geta ekki sætt sig við það að fá ekki hliðstæð framlög og önnur landsvæði á landsbyggðinni og sveitarfélögin hafa því tekið málið í sínar hendur og sýnt lofsvert frumkvæði til að koma í veg fyrir að fjarnám í háskólamenntun leggist af. Því er ástæða til að skora á hæstv. menntamálaráðherra að beita sér fyrir því að ríkisvaldið axli þá ábyrgð sem það ber á þessu háskólanámi eins og öllu öðru og komi að fjárhagslegum rekstri og fjárhagsvanda fræðslumiðstöðvanna með myndarlegum og endanlegum hætti.