132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Háskólanám sem stundað er í fjarnámi.

183. mál
[15:53]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vísa því alfarið á bug að ekki sé skilningur af minni hálfu eða annarra í ríkisstjórninni á því að efla tækifæri allra landsmanna til náms. Það höfum við einmitt verið að gera á undanförnum árum og allar nemendatölur á háskólastigi sýna það. Menn verða einfaldlega að fylgjast með og vera með á nótunum hvað það varðar.

En mér finnst þetta nokkuð köld vatnsgusa framan í þau merkilegu verkefni sem við stöndum fyrir á Ísafirði og á Egilsstöðum, að við megum ekki taka þau fram yfir sem tilraunaverkefni — þau svæði eru í áberandi mikilli fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu og aðstaða þeirra sem þar búa til þess að stunda háskólanám er áberandi verst. Mér finnst þetta köld vatnsgusa framan í þau merku verkefni á háskólastigi sem við stöndum saman að, iðnaðarráðherra, menntamálaráðherra og svo sveitarfélög og íbúar á þeim svæðum. Að sjálfsögðu er það markmið ríkisstjórnarinnar að halda áfram að fjölga tækifærum allra á öllum skólastigum úti um allt land, fjölga tækifærum til náms, og það höfum við verið að gera og munum halda því áfram. Hins vegar er alveg ljóst að við í menntamálaráðuneytinu erum að greiða fyrir háskólanema hvar sem þeir eru á landinu. Háskólarnir fá borgað fyrir nemendur. Ef þessir nemar eiga að vera hlutfallslega dýrari en aðrir erum við komin inn á svið byggðamála og það þurfum við líka að ræða á þeim vettvangi. Þess vegna hafa iðnaðarráðuneyti og ráðuneyti menntamála verið í góðu samstarfi um að stuðla að enn frekari uppbyggingu menntunar á öllum skólastigum um land allt og að sjálfsögðu munu málefni símenntunarmiðstöðvanna á þeim svæðum sem fyrirspurnin lýtur að verða tekin til gaumgæfilegrar skoðunar eins og önnur svæði.