132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Fræðsla í grunn- og framhaldsskólum um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum.

216. mál
[15:55]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Frú forseti. Þessi fyrirspurn lýtur að fræðslu um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum í aðalnámskrá grunn- og framhaldsskóla til barnanna sjálfra. Fyrr í vetur beindi ég svipaðri fyrirspurn til ráðherra um námskrá Kennaraháskólans og laut hún að fræðslu til verðandi kennara.

Það er ekki nóg að fræða kennara og verðandi kennara um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. Það þarf einnig að kenna börnunum sjálfum hvað kynferðislegt ofbeldi er, hvað má og hvað má ekki. Einnig þarf að kynna börnum þau úrræði sem eru fyrir hendi lendi þau í kynferðislegri misnotkun af einhverju tagi.

Íslensk börn þurfa sárlega kennslu og fræðslu um þessi mál því ekki fá þau hana heima hjá sér á þeim heimilum þar sem þörfin fyrir slíka kennslu er hvað mest. Átaksverkefnið Blátt áfram hefur staðið fyrir frábærri brúðuleiksýningu í nokkrum grunnskólum landsins þar sem börn eru frædd um þessi mál og er mikil eftirspurn eftir þeirri sýningu. Í grunnskólalögum kemur fram að menntamálaráðherra setur grunnskólum landsins aðalnámskrá. Skólastjóri er svo ábyrgur fyrir skólanámskrá sem er nánari útfærsla á aðalnámskrá.

Það er mikilvægt að áhersla okkar allra á að vinna gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum birtist í aðalnámskrá og þá í lögunum sjálfum — að það sé ekki einungis á forræði skólanna sjálfra hvort slík fræðsla er til staðar í skólanum eða ekki og þá t.d. innan lífsleikninnar.

Í 29. gr. grunnskólalaga eru talin upp nokkur atriði sem skólar eiga að leggja áherslu á. Má þar nefna eflingu sjálfs- og félagsvitundar nemenda og stuðla eigi að líkamlegri og andlegri velferð, heilbrigðum lífsháttum og ábyrgri umgengni við líf og umhverfi. Þarna kemur einnig fram áhersla á náms- og starfsfræðslu, kynning á atvinnulífi og námsleiðum til undirbúnings náms- og starfsvals og áhersla á þjálfun í íslensku í öllum námsgreinum og leikræna og listræna tjáningu. Í allri þessari upptalningu, sem er að sjálfsögðu talsvert lengri í lögunum, gæti vel átt heima áhersla á fræðslu um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. Í 30. gr. sömu laga er einnig umfjöllun um hvað eigi að vera í aðalnámskránni.

Í framhaldsskólalögunum er þetta sett upp með svipuðum hætti og þar segir í stuttu máli að menntamálaráðherra eigi að setja aðalnámskrá skólanna og beri ábyrgð á henni. Mig langar því að spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort hún muni beita sér fyrir því að fullnægjandi fræðsla um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum verði tekin upp með beinum hætti í aðalnámskrá grunn- og framhaldsskóla.