132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Fræðsla í grunn- og framhaldsskólum um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum.

216. mál
[16:03]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir svörin. Ég fagna því að hæstv. ráðherra tekur hér undir að við þurfum að auka þessa fræðslu í grunn- og framhaldsskólum. Ég held að flest okkar séu sammála um að fræðsla um þessi mál verður seint of mikil.

Það er líka mjög mikilvægt að hafa í huga að eins og hæstv. menntamálaráðherra sagði er þessi námskrá í endurskoðun núna. Því er hér á ferðinni alveg einstakt tækifæri til að setja sérstök áherslumál í námskrána. Það eru atriði talin upp í sjálfum lögunum um hvað eigi að vera í námskrá grunn- og framhaldsskóla. Þess vegna á þetta heima hér á þingi. Þetta á ekki, að mínu mati, að vera á forræði viðkomandi skóla eingöngu.

Þess vegna kalla ég eftir aðeins skýrari svörum frá hæstv. menntamálaráðherra um hvort hún muni beita sér fyrir því með beinum hætti að tekið verði sérstaklega fram að fræðsla um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum verði bókstaflega talin upp í viðkomandi lögum. Ég veit að það er búið að gera margt gott varðandi einelti og ofbeldi og virðingu. Lífsleiknin er námskeið sem hefur gengið mjög vel. En það væri mjög sorglegt ef hætta væri á því að þessi áhersla, að þessi fræðsla um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum mundi mæta einhvers konar afgangi vegna t.d. þekkingarleysis, skorts á fjárráðum eða einfaldlega svigrúmi. Því er mjög mikilvægt að skólar landsins fái þau skilaboð frá þinginu, ég tala nú ekki um ef það færi í sjálf lögin, að það ætti að vera sérstök fræðsla um þetta ofbeldi. Við þurfum svona sambærilegt átak í fræðslu um kynferðislegt ofbeldi eins og var og er stöðugt í gangi varðandi einelti. Ég tek alveg undir það sem ráðherra segir um það, að þar hefur verið gert mjög margt gott. En nú tel ég vera komið að þessu kynferðislega ofbeldi gegn börnunum og þess vegna kalla ég aftur eftir aðeins skýrari svörum um hvort ráðherrann muni beita sér með beinum hætti fyrir því einfaldlega að setja þetta í sjálf lögin í þeirri endurskoðun sem nú stendur yfir.