132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Heimild Fjármálaeftirlitsins til að beita dagsektum.

[13:34]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu. Þannig er að stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, Stefán Svavarsson, dósent við Háskólann í Reykjavík, gerði bréfi eftirlitsins til ráðuneytisins ágætlega skil í ræðu sinni á ársfundi stofnunarinnar sem haldinn var í nóvember. Ræða formannsins hefur verið aðgengileg á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins síðan, auk þess sem umfjöllun formannsins um niðurstöður kærunefndar voru gerð skil í fjölmiðlum.

Það að Fjármálaeftirlitið skuli hafa sent ráðuneytinu erindi um áhyggjur sínar af því að geta ekki skotið niðurstöðum kærunefndar til frekari umfjöllunar dómstóla hefur því verið opinbert mál um nokkra hríð. Ég tel ekki ástæðu til að fara yfir bréf Fjármálaeftirlitsins enda hefur verið gerð grein fyrir því. Hins vegar vil ég láta þess getið sem ekki hefur komið fram opinberlega áður að síðastliðið haust var hafin í viðskiptaráðuneytinu vinna við frumvarpssmíð sem hefur það að markmiði að styrkja eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins. Við þá vinnu hefur m.a. verið farið yfir úrskurði kærunefndar, ekki aðeins þann sem varð tilefni bréf Fjármálaeftirlitsins, m.a. til að komast að því hvar kærunefnd teldi að eftirlitsheimildirnar væru ekki nægilega skýrar.

Ákvæði um dagsektir og stjórnvaldssektir koma þar til skoðunar ásamt öðrum úrræðum sem Fjármálaeftirlitið telur sig þurfa að hafa. Vinna við það er langt komin og sérfræðingar ráðuneytisins hafa sagt mér að líkur séu á að hægt sé að leggja fram frumvarp í framhaldi af því á vorþingi. Ég vonast svo sannarlega til þess að svo verði og það verði afgreitt fyrir vorið.