132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Heimild Fjármálaeftirlitsins til að beita dagsektum.

[13:43]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér fer fram mjög þörf umræða. Hún snertir í raun hraða viðskiptalífsins. Það fer á ógnarhraða. Hlutir skipta um eigendur mjög hratt en á meðan fylgir stjórnsýslan ekki eftir. Fjármálaeftirlitið hefur ekki heimildir til þess að ná fram markmiðum sínum. Það er ekki hægt að una við það. Við sjáum það ekki einungis af sparisjóðsmálum. Það kom úrskurður um að yfirtökuskylda hefði myndast hjá eigendum FL Group. Þá virðist búið til eitthvert málamyndasamkomulag við einn stærsta banka þjóðarinnar Landsbanka Íslands um að hann taki yfir eigurnar að nafninu til en eftir sem áður haldi fyrri eigendur, hvort sem verður, hagnaði eða tapi af þessum bréfum. Þetta gengur auðvitað ekki svona lengur. Menn verða að taka til í þessum málum. Það er löngu tímabært.