132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Siglingalög.

376. mál
[13:55]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé fyllilega tímabært að flytja svona frumvarp því sagan sýnir að skipstjórnarmenn hafa lent í vandræðum vegna drykkjuskapar, stöku dæmi hafa komið upp og sum hver allalvarleg. En ég skal viðurkenna, frú forseti, að við fyrsta yfirlestur á þessu ágæta frumvarpi brá mér örlítið í brún. Ég skil þau öryggissjónarmið að sá sem ber ábyrgð á skipstjórn, farkosti, þurfi að vera allsgáður vegna þess að um mannslíf er að tefla. En við fyrsta yfirlestur sýndist mér þetta eiga við alla skipverja og leist mér nú ekki beinlínis á. Ég vil því bera fram þá fyrirspurn, til að fá alveg úr því skorið hjá hæstv. ráðherra, hvort t.d. glaðlyndur þjónn eða matreiðslusveinn á skemmtiferðaskipi sem vill kannski aðeins hýrga upp á sig í starfi sínu, hvort það mundi teljast refsivert ef yfir ákveðin mörk er farið. Eða nær þetta einungis til stjórnunarhlutans uppi í brú? (GHall: Eða kokkur á kútter frá Sandi?) Eða kokkur á kútter frá Sandi, eins og hv. formaður samgöngunefndar spyr.