132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Heimild til að staðfesta samþykkt um alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó.

378. mál
[14:00]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd samþykkt um alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó, 1972, nr. 7 26. febrúar 1975, með síðari breytingum.

Markmið frumvarpsins er að gefa ríkisstjórninni heimild til þess að staðfesta nýjar alþjóðareglur í siglingamálum. Alþjóðasiglingareglurnar hafa í rúmlega 200 ár verið höfuðreglur siglingaþjóða um stjórn og siglingu skipa á höfunum. Meginmarkmið reglnanna er að koma í veg fyrir árekstra á sjó og stuðla að betri og öruggari siglingum og þar með auknu öryggi sjófarenda við hinar margvíslegu aðstæður.

Með lögum nr. 7/1975 var ríkisstjórninni fyrst heimilað að staðfesta fyrir Íslands hönd samþykkt um alþjóðlegar reglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó. Samþykktin var fullgilt í apríl árið 1975 og öðlaðist gildi 15. júlí 1977. Reglurnar hafa tekið nokkrum breytingum síðan, nú síðast með lögum nr. 123 frá árinu 2001.

Frumvarp þetta felur fyrst og fremst í sér endurþýðingu á gildandi alþjóðareglum í heild sinni auk þess sem settar hafa verið nokkrar nýjar reglur í samræmi við ákvæði alþjóðareglna. Siglingastofnun Íslands sá um þýðingu þessara reglna. Helstu breytingar sem frumvarpið felur í sér varða nýjar reglur um svokölluð svifför en það eru farartæki sem nýta eigin loftpúðaáhrif til þess að svífa rétt ofan við yfirborðið. Þessar nýju reglur öðluðust alþjóðlegt gildi þann 29. nóvember 2003. Með gildistöku þeirra laga sem hér eru til umfjöllunar öðlast þær lagagildi hér á landi.

Ávinningur með frumvarpinu er einkum sá að lögfesta nýjar alþjóðareglur frá árinu 2003 þannig að þær öðlist lagagildi hér á landi auk þess sem ný og endurbætt þýðing á alþjóðareglum fylgir lögunum og kemur í stað fylgiskjals með lögum nr. 7/1975.

Virðulegur forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til hv. samgöngunefndar.