132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Bílaleigur.

379. mál
[14:07]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það eru þrjú atriði sem mig langaði til þess að gera að umræðuefni hér við 1. umr. um þetta frumvarp um breytingu á lögum um bílaleigur.

Það fyrsta er sú meginbreyting sem hér verður, þ.e. að færa verkefnin til Vegagerðarinnar. Nú eru færð rök fyrir því að það sé samkvæmt stjórnsýslulögum, í samræmi við þau. Ég geri ekki athugasemd við það. Ég held hins vegar að hv. samgöngunefnd eigi að staldra við og skoða hversu umfangsmikil og margbreytileg verkefni þessarar ríkisstofnunar eru orðin, miklu fleiri og meiri en að leggja vegi og byggja brýr. Það er ekki bara að Vegagerðin fái hér heimild til þess að gefa út starfsleyfin heldur hefur hún einnig eftirlitsheimild. Þó að hún geti, eins og hér kemur fram, falið faggiltum skoðunaraðilum að taka að sér þau verkefni, úthýst þeim með þeim hætti, þá er hér bæði um það að ræða að gefa út leyfin, halda skrána og hafa eftirlit með bílaleigunum. Þetta þarf að skoðast vel í nefndinni.

Í öðru lagi er það hækkunin á starfsleyfinu, hækkun þess í verði. Hér virðist tækifærið notað til þess að hækka verðið á leyfinu um 150%, úr 10 þúsund í 25 þús. kr. Kann að vera að einhverjum finnist það ekki há upphæð til þess að kaupa fyrir starfsleyfi eða fá það afhent. En við skyldum þó athuga það að ekki er sjálfgefið að standa að svona mikilli verðhækkun á einu starfsleyfi bara sisvona.

Í þriðja og síðasta lagi er það hér smámál. Mér sýnist vera málvilla í notkun orðsins opnunartími sem kemur fyrst fyrir í e-lið 2. gr. þar sem segir: „Opnunartími skal auglýstur ...“ Samkvæmt mínum málskilningi er opnunartími sá tími þegar eitthvað er opnað, hvort sem það er búð eða annar afgreiðslustaður, lokunartími þegar lokað er. Þess á milli er afgreiðslutími. Væntanlega munum við bara breyta þessu í hv. samgöngunefnd og tala um afgreiðslutíma.