132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Bílaleigur.

379. mál
[14:10]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Tvö atriði vekja hjá mér spurningar um þetta frumvarp. Í fyrsta lagi d-liður 2. gr. þar sem fjallað er um fasta starfsstöð bílaleigu.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Bílaleiga á grundvelli starfsleyfis skal rekin á fastri starfsstöð sem opin skal almenningi á tilgreindum tíma.“

Nú starfa bílaleigur ekki einungis á einum stað, þ.e. sama bílaleigan. Hún hefur oft og tíðum margar starfsstöðvar sem dreifðar eru um landið. Á landsbyggðinni þar sem ég þekki til er gjarnan um að ræða einstakling sem hefur umboð fyrir tiltekna bílaleigu og afgreiðir gjarnan bílana heiman frá sér. Mér er þá spurn hvort þessi grein eigi líka við um þessa starfsemi, þ.e. þegar um er að ræða nokkurs konar umboð. Ef svo er ekki vil ég spyrja hvort ekki sé talin ástæða til að fjalla í einhverju máli um umboð bílaleigna. Mér er kunnugt um að svona starfsemi veldur oft og tíðum ágreiningi. Umboðsmennirnir eru gjarnan með starfsemina eða umboðið heima hjá sér, eins og ég sagði áðan, og bílunum er oft lagt við heimahús. Það veldur nágrönnunum oft erfiðleikum. Um þrengsli getur verið að ræða og síðan eykst að sjálfsögðu umferð. Stundum er verið að þrífa skítuga bíla og skolast út á götur o.s.frv. Þetta er bara augljóst mál sem ég er að segja hér frá og getur valdið ama og ónæði og jafnvel hættu í umhverfi.

Í þessu frumvarpi er ekkert sem kveður á um að slík umboð þurfi nein leyfi. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort ekki sé ástæða til þess að fjalla að einhverju leyti í þessu lagafrumvarpi um umboðin eða þá að kveða skýrar á um að þetta sem hér er kallað starfsstöð eigi líka við það sem ég kalla umboð í máli mínu.

Síðan er í 5. gr. talað um hámarksleigusamning fyrir bíl sem hefur notið lækkunar á vörugjöldum og þá er tíminn takmarkaður við þrjár vikur. Ég skil það og sé það í skýringunum að þessi takmörkun er sett inn vegna samkeppni sem komin er upp á milli bílaleigna og kaupleigna eða fjármögnunarfyrirtækja hins vegar. Mér er spurn hvort þrjár vikur séu ekki fullskammur tími og hvort einhver ástæða sé til þess að hafa þetta svo skamman tíma. Það er nú þannig að þegar ferðamenn koma til Íslands þá dvelja þeir sem á annað borð eru að ferðast um landið gjarnan lengi vegna þess að dýrt er að fljúga hingað. Þó það sé að vísu ódýrara í dag en það var hér á árum áður er það tiltölulega dýrt og ég get ekki séð að það breyti miklu fyrir þetta samkeppnissjónarmið sem hér er lýst hvort við setjum þessi takmörk við þrjár vikur, fjórar, fimm eða sex. Mér finnst engin ástæða til annars en að hafa þennan tíma nokkuð rúman því að þeir sem á annað borð leigja af kaupleigufyrirtækjum eða fjármögnunarfyrirtækjum eru að leigja til lengri tíma að því er ég tel. Mér finnst þetta því of skammur tími. Ég mundi leggja til að miðað væri við mánuð eða einn og hálfan mánuð.

Svo finnst mér að það þurfi að skýra þetta sem ég tiltek með umboðið eða starfsstöðvarnar, litlu starfsstöðvarnar úti á landi.