132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Bílaleigur.

379. mál
[14:23]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans. Hann þekkir vel eftirlitsiðnaðinn, hefur starfað í honum, þannig að ábendingar úr þeirri átt eru vel þegnar. En til að taka af allan vafa var frumvarpið lagt fyrir nefnd um opinberar eftirlitsreglur og engar athugasemdir gerðar við það. Það er ekki verið að auka eftirlitið út af fyrir sig, það verður væntanlega skilvirkara. Það verður bara að segjast eins og er að ráðuneytið hefur ekki haft þann möguleika sem Vegagerðin hefur til að sinna þessu eftirliti. Hvað varðar eftirlit með starfseminni og staðsetningu slíkra starfsstöðva þá er það sveitarstjórna að gefa út leyfi til að reka slíkar starfsstöðvar. Ég lít svo á að það sé verkefni sveitarfélaga að sjá til þess að þær séu ekki staðsettar þannig að óforsvaranlegt ónæði hljótist af.

Ég tek undir með hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni að við þurfum að hafa hemil á útþenslu eftirlitsstarfseminnar. Það skiptir okkur máli að hafa hana vel skipulagða og í hófi alla. En það er engu að síður nauðsynlegt að starfsemin sæti reglum og fylgst sé með því að þær reglur séu haldnar. Það ágæta fólk sem kemur til landsins verður að vera öruggt um að það sé að skipta við bílaleigur sem fara að öllum öryggisreglum. Það er mergurinn málsins.