132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Rannsókn sjóslysa.

412. mál
[14:36]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um rannsókn sjóslysa, nr. 68/2000, með síðari breytingum. Gerðar eru þrjár breytingar á gildandi lögum um rannsókn sjóslysa.

Í fyrsta lagi er ákvæði um lagalega stöðu framkvæmdastjóra rannsóknarnefndar sjóslysa breytt til samræmis við stöðu forstöðumanna rannsóknarnefndar flugslysa og stöðu forstöðumanns rannsóknarnefndar umferðarslysa, sbr. 4. gr. laga nr. 35/2004, um rannsókn flugslysa, og 4. gr. laga nr. 24/2005, um rannsóknarnefnd umferðarslysa.

Jafnframt því sem þessi breyting gerir framkvæmdastjóra rannsóknarnefndar jafnsettan og hliðstæðan hinum forstöðumönnum rannsóknarnefndanna gagnvart lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er varða ábyrgð forstöðumanna á þeirri stofnun sem hann veitir forstöðu og gagnvart þeim sérstöku ákvæðum sem um embættin gilda, er með þessari breytingu gert ráð fyrir að störf nefndarinnar verði markvissari og að hún verði sjálfstæðari og þannig verði tilgangi laganna enn frekar náð. En tilgangur laganna er að koma í veg fyrir slys um borð í skipum og að auka öryggi til sjós með rannsóknum og góðri upplýsingagjöf um þær rannsóknir og tillögur í öryggisátt. Enn fremur er gert ráð fyrir að samgönguráðherra ráði til nefndarinnar aðstoðarforstöðumann sem skuli vera staðgengill forstöðumanns, t.d. vegna forfalla, leyfa eða sambærilegra atvika. Er afar mikilvægt að þarna geti verið samfella í störfum þessara aðila og því er þetta ákvæði mjög mikilvægt.

Í öðru lagi eru sett inn ákvæði um lögin þar sem kveðið er á um að forstöðumaður nefndarinnar skuli jafnframt vera rannsóknarstjóri nefndarinnar og stýri rannsóknarverkefnum á vegum hennar. Hliðstæð ákvæði eru í lögum um hinar rannsóknarnefndirnar tvær.

Í þriðja lagi eru ákvæði laganna um aðgang rannsóknarnefndar sjóslysa að ýmsum gögnum sem er breytt þannig að skýrt sé kveðið á um heimild nefndarinnar til aðgangs að upptökum sem eru til um borð í skipum til að auðvelda megi rannsókn sjóslysa. Sambærileg ákvæði eru í 14. gr. gildandi laga um rannsóknarnefnd flugslysa er varða loftför.

Til grundvallar þessari breytingu liggur að á vegum Alþjóðasiglingastofnunarinnar (IMO) hafa verið samþykktar reglur sem bera það með sér að í öllum skipum sem eru stærri en 3.000 brúttótonn og voru smíðuð eftir 1. júlí 2002, skuli vera svokallaður VDR eða siglingariti sem svipar til „svarta kassans“ í flugvélum. Megintilgangur hans er að uppfylla öryggiskröfur stofnunarinnar, þ.e. Alþjóðasiglingastofnunarinnar, um upptöku og geymslu gagna vegna rannsókna á óhöppum á sjó. Rannsóknaraðilar erlendis hafa þegar nýtt sér þessi tæki, einkum í Bretlandi, og vegna góðrar reynslu af notkun þessa tæknibúnaðar hefur Evrópusambandi tekið ákvæði um hann upp í tilskipun, sem skiptir auðvitað miklu máli, frá 27. júní 2002, um stofnun eftirlits- og upplýsingakerfis bandalagsins um umferð á sjó. Tilskipun þessi, sem er hluti af samningi um evrópska efnahagssvæðið, var að mestu tekin upp við íslenskan rétt með setningu laga um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003.

Af þessu tilefni vil ég nefna alveg sérstaklega að með lögunum um rannsóknarnefnd sjóslysa sem tóku gildi árið 2000, var unnið að umfangsmiklum breytingum á rannsóknum sjóslysa. Bæði var lagaumhverfi gjörbreytt. En auk þess var allt starfsumhverfi og allir starfshættir rannsóknarnefndarinnar teknir til gagngerrar endurskoðunar og uppstokkunar og var nefndin og starfsstöð hennar flutt út á land á árinu 2001. Þar voru og hafa verið allar götur síðan á vegum nefndarinnar og á vettvangi ágætra starfsmanna nefndarinnar innleiddar miklar breytingar. Tölvutæknin hefur að sjálfsögðu verið tekin í notkun til að auðvelda starfsemi nefndarinnar en nefndarmenn eru búsettir vítt og breitt um landið og þess vegna skiptir miklu máli að allur búnaður auðveldi þeim þetta mikilvæga starf við rannsóknir sjóslysa.

Óafgreiddum málum rannsóknarnefndarinnar hefur fækkað verulega sl. fimm ár. Í árslok 2001 voru óafgreidd mál hennar 94 en í lok sl. árs voru þau 27. Á sama tíma hefur skráðum málum fjölgað úr 121 máli árið 2001 í 168 mál árið 2005. Þessa aukningu skráðra mála má rekja til átaks nefndarinnar í að fá mál til sín og einnig til góðs samstarfs við lögregluembættin í landinu. Nefndin hefur lagt á það áherslu að eiga gott samstarf við alla aðila sem að þessu koma, ekki síst lögreglu og útvegsmenn og sjómenn. Ég tel því að starf nefndarinnar hafi borið mjög góðan árangur.

Það er auðvitað verkefni nefndarinnar að gera tillögur í öryggisátt á öllum sviðum sem í ljós koma að þarf að gera ef slys verður.

Það er kannski ástæða til að vekja athygli á því, ekki síst fyrir hv. þingmenn sem eru í samgöngunefndinni, að nefndin heldur úti mjög öflugri heimasíðu þar sem hægt er að afla sér upplýsinga um starfsemi hennar og þær rannsóknir sem eru í gangi. Allar rannsóknarskýrslur fram til ársins 2003 eru auk þess prentaðar þar. Það er gert ráð fyrir að skýrslur fyrir árið 2005 verði tilbúnar á næstunni. Þetta eru upplýsingar sem ég taldi ástæðu til að draga saman og fá frá nefndinni því þarna hefur orðið mikil breyting á og það var rík ástæða til að standa vel að þeirri endurskipulagningu sem fór fram í kjölfar lagabreytinganna árið 2000 því allt snýst það um að auka öryggi sjófarenda. Við Íslendingar eigum áfram að leggja mikla áherslu á öryggisþætti sjómanna og það eru fjölmargir sem hafa sýnt þessu áhuga og sýnt hann í verki. Út um allt land eru slysavarnafélög sem vinna feiknalega gott starf. En rannsóknir á slysum eru hins vegar mikilvægar til að auðvelda sjómönnum og útvegsmönnum að standa þannig að málum að sem mests öryggis sé gætt um borð í skipunum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til hv. samgöngunefndar.