132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Rannsókn sjóslysa.

412. mál
[14:48]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir orð hæstv. ráðherra um mikilvægi þess að rannsóknir sjóslysa séu sem öflugastar og nefndinni búin sem best skilyrði til að inna þau verkefni af höndum á sem bestan hátt og einnig það fyrirbyggjandi starf sem ætlunin er að rannsóknarnefnd sjóslysa komi að til að fyrirbyggja slys á sjó. Undir þessi orð hæstv. ráðherra tek ég heils hugar.

Það eru aðeins tvö atriði sem ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um sem lúta meira að tæknilegum þáttum þessa frumvarps. Eins og fram kom í máli ráðherrans og kemur fram í frumvarpinu var starfandi svokallaður framkvæmdastjóri rannsóknarnefndar sjóslysa. Hér er því verið að breyta um form. Það er verið að búa til stofnun, formgera rannsóknir sjóslysa sem sérstaka stofnun með ráðningu forstöðumanns. Ég hef í sjálfu sér ekkert við það að athuga en er það mat ráðherrans að með þessari breytingu í rannsóknarstjóra og forstöðumann sé um nýtt starf að ræða sem verði að auglýsa og ráða í að nýju eða hver er staða núverandi framkvæmdastjóra?

Í öðru lagi. Er það ekki alveg á hreinu að forstöðumaðurinn mun falla undir lög um opinbera embættismenn og ráðningarkjör eins og almennir forstöðumenn ríkisstofnana búa við en ekki einhver sérákvæði um kjör. Ég vildi heyra hæstv. ráðherra lýsa afstöðu sinni til þessa.