132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Rannsókn sjóslysa.

412. mál
[14:51]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi bara vekja athygli á þessum þætti málsins því það þarf náttúrlega að huga að réttarstöðu starfsmanna þegar verið er að breyta eins og hér er verið að gera. Hér er raunar bara verið að formgera starfsemi sem er fyrir hendi, færa hana undir ákveðið form og þá þarf að huga að stöðu bæði núverandi og væntanlegra starfsmanna. Þetta mun væntanlega koma fram í hv. samgöngunefnd, þar mun þetta verða kannað. Ég lýsi líka ánægju minni með að sá skilningur minn sé réttur að forstöðumaðurinn sé ráðinn samkvæmt almennum reglum um forstöðumenn en ekki samkvæmt einhverjum sérákvæðum eins og stundum er tíðkað núorðið af hálfu ríkisstjórnarinnar að taka forstöðumenn út fyrir sviga og ráða þá á einhverjum sérkjörum öðrum en gilda almennt um forstöðumenn. Ég vona að sá skilningur minn sé réttur og þetta mál komi síðan inn til samgöngunefndar eins og gert er ráð fyrir og þar verði m.a. farið yfir þá þætti sem ég nefndi. Annars hef ég ekkert nema gott um þetta mál að segja.