132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Stuðningur við einstæða foreldra í námi.

16. mál
[14:53]
Hlusta

Flm. (Hlynur Hallsson) (Vg):

Frú forseti. Ég legg fram þingsályktunartillögu um stuðning við einstæða foreldra í námi. Hún er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa starfshóp sem móti tillögur um aðgerðir til að bæta aðstöðu einstæðra foreldra í námi með fjárhagslegum og félagslegum stuðningi með það að markmiði að einstæðir foreldrar geti fylgt jafnöldrum sínum í námi á framhaldsskólastigi og stundað nám á efri skólastigum til jafns við aðra.“

Tillaga þessi var flutt á síðasta þingi af Bjarkeyju Gunnarsdóttur sem sat á þingi fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð í Norðausturkjördæmi. Tillagan var ekki útrædd en efni hennar er enn í fullu gildi og er hún því endurflutt, og er reyndar ærin ástæða til og hefur alls ekki minnkað.

Þann 1. desember 2003 voru á Íslandi 11.006 einstæðar mæður og 895 einstæðir feður með börn á framfæri, eða tæplega 12 þúsund alls, og hafði þá fjölgað um tæp 400 frá árinu 2002.

Hér er um gríðarstóran þjóðfélagshóp að ræða sem getur átt harla erfitt um vik þegar kemur að því að sækja sér menntun og stunda sitt nám. Ég legg því ríka áherslu á að í fyrirhuguðum starfshópi verði fulltrúi frá Félagi einstæðra foreldra.

Í könnun sem gerð var af Rauða krossi Íslands árið 1994 kom í ljós að stærsti hópurinn sem stóð höllum fæti í íslensku þjóðfélagi var einstæðir foreldrar og þá helst ungar, ómenntaðar einstæðar mæður. Í kjölfar þessarar könnunar var ákveðið að koma á laggirnar námssjóði fyrir einstæða foreldra í samvinnu við Félag einstæðra foreldra. Fyrsta framlag Rauða krossins var 1 millj. kr. árið 1995 en ákveðið var að auka framlagið og ári seinna lagði Rauði krossinn 4 millj. til viðbótar í sjóðinn. Sjóðurinn var formlega settur á laggirnar árið 1996 og meginmarkmið hans var að veita styrki til einstæðra foreldra í námi eða þeirra sem hyggjast sækja starfsnámskeið. Reynslan hefur sýnt að brýn þörf er á slíkum styrkjum þar sem styttra starfsnám eða námskeið sem bæta stöðu á vinnumarkaði veita oft ekki aðgang að námslánum eða annars konar styrkjum.

Nú er reyndar svo komið að fé í þessum sjóði er uppurið og út af fyrir sig má velta því fyrir sér hvort það sé hlutverk Rauða krossins að styrkja einstæða foreldra í námi. Þetta var þó afar gott framtak en menn hefðu auðvitað fagnað því ef stjórnvöld hefðu komið á einhvern hátt til móts við einstæða foreldra og lagt til fjármagn. Því miður er sjóðurinn uppurinn, úr honum var úthlutað fimm til sjö styrkjum tvisvar á ári. Styrkirnir voru ekki háir, 50–100 þús. kr. hver en margfalt fleiri sóttu hins vegar um þessa styrki.

Einstæðar mæður skila sér illa í framhaldsskólanám. Einungis um þriðjungur þeirra sem eru 19 ára eða yngri stundar nám á framhaldsskólastigi, aðeins þriðjungur. Ég vil undirstrika það hversu lág tala þetta er. Ég las það á netinu í morgun, NFS birtir þar að 42.200 nemar hafi verið skráðir í framhalds- og háskólanám í landinu í haust samkvæmt tölum Hagstofunnar og hafa aldrei verið fleiri. Haustið 2005 stunda tæplega 82% nemenda nám í dagskóla, rúmlega 12% fjarnám og 6% eru í kvöldskólum. Ástæðan fyrir þessari aukningu er auðvitað að hluta til sú að æ fleiri vilja sækja sér menntun og eiga þess betur kost núna. Háskólum hefur fjölgað, nefni ég þar Háskólann á Akureyri þar sem reyndar verður að vísa frá nemendum. Þetta leiðir auðvitað hugann að því að það sé enn þá mikilvægara að fjölga einstæðum foreldrum í námi.

Kostnaður við að afla sér menntunar getur hæglega orðið mörgum ofviða og þarf reyndar ekki einstæða foreldra til. Lánasjóður íslenskra námsmanna hleypur undir bagga með skólafólki upp að vissu marki en það takmarkast við háskólanám og það sérskólanám sem telst lánshæft samkvæmt reglum lánasjóðsins. Út af stendur almennt nám á framhaldsskólastigi og kemur það afar illa við einstæða foreldra sem hafa orðið að gera hlé á skólagöngu sinni vegna fjölskylduaðstæðna. Eðlilegt væri að sá starfshópur sem hér er gerð tillaga um færi vandlega yfir það hvort ekki þyrfti að breyta lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna á þann veg að námslán yrðu einnig veitt til foreldra sem eru að hefja nám á framhaldsskólastigi á nýjan leik. Mér er kunnugt um að menntamálanefnd tók þetta mál fyrir en málið fékk því miður ekki hljómgrunn þar.

Fátækt er útbreitt og vaxandi vandamál og hlutskipti æ fleiri einstaklinga og fjölskyldna, m.a. þessa stóra hóps einstæðra foreldra sem getur átt mjög erfitt þegar kemur að því að sækja sér menntun og stunda nám. Vitað er að þeir sem ekki eiga þess kost að mennta sig eru líklegri en aðrir til að festast í fátækt. Það er því mikilvægt að menntakerfi framtíðarinnar bjóði upp á símenntun fyrir alla óháð efnahag. Margir einstæðir foreldrar eiga ekki annarra kosta völ en að búa í foreldrahúsum til að láta enda ná saman þótt sú leið sé ekki endilega ávísun á betri aðstæður til að sinna heimanámi. Auk þess þarf að styðja við Félag einstæðra foreldra sem rekur neyðarhúsnæði fyrir félagsmenn sína. Reyndar ber að geta þess að t.d. velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefur hlaupið undir bagga með einstæðum foreldrum og er það vel.

Grunnmenntun, þ.e. nám í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum, á að vera nemendum að kostnaðarlausu. Leikskólar eru hluti af menntakerfinu og hefur verið mótuð sérstök námskrá fyrir það skólastig. Einstæðum foreldrum er víða léttur róðurinn með lægri leikskólagjöldum en almennt tíðkast og er það vel. Hins vegar get ég nefnt það dæmi að í mínum heimabæ, á Akureyri, var þetta fellt niður þannig að nú borga allir sama gjald fyrir leikskólabörn og það er auðvitað miður. Það getur auðvitað ekki talist eðlilegt að borga skólagjöld fyrir börn á leikskólastigi, enda höfum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu um að leikskólastigið verði einnig gjaldfrjálst. Það er aldrei að vita nema það komist til framkvæmda jafnvel í tíð þessarar ríkisstjórnar þó að ég sé ekkert sérstaklega vongóður um það, en sem betur fer er ekki svo langt þangað til að við skiptum um stjórn.

Í skýrslu um fátækt, sem vinnuhópur forsætisráðherra skilaði af sér, er lagt til að tekjutengja mætti leikskólagjöld og létta þannig undir með fátæku barnafólki þar sem slíkt mundi örva fólk til sjálfshjálpar og gefa þeim kost á að stunda hvort sem er nám eða vinnu. Í þessu tilliti vega jafnréttissjónarmið þungt þar sem einstæðir foreldrar eru einn fjölmennasti hópurinn sem nýtur fjárhagsaðstoðar. Ljóst er að ef létt væri enn frekar undir með þeim varðandi leikskólagjöld mundi það skapa þeim betri tækifæri til náms eða atvinnuþátttöku.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði viljum auka fjölbreytni í skólastarfi og tryggja fullt jafnrétti til náms óháð efnahag. Mikilvægt er að horfa sérstaklega til kvenna sem ekki hafa náð að ljúka framhaldsskólanámi áður en stofnað var til fjölskyldu sem hættir til að lenda í fátæktargildru. Ef maður veltir fyrir sér aðstæðum einstæðrar móður sem hyggur á nám þá þarf hún undantekningarlaust að að sækja um styrki eða lán til að stunda það. Ekki getur hún unnið með náminu án þess að það bitni á nauðsynlegri samvinnu hennar við börn sín. Hún er samt eina fyrirvinna heimilisins og þarf að sjá sjálfri sér og börnum sínum fyrir daglegum nauðsynjum, vinna heimilisstörfin, koma börnunum í skóla og leikskóla, fara svo sjálf í skólann og á síðan eftir að sinna heimanáminu. Í þessu efni getum við tekið frændur okkar Dani okkur til fyrirmyndar. Danir styrkja nemendur beint með styrkjum. Ég veit að styrkurinn nemur ríflega 100 þús. kr. á mánuði. Danska ríkið hefur það fram yfir íslenska ríkið að bjóða þegnum sínum styrki til náms og það er líklega kominn tími til að það verði einnig skoðað hér af einhverri alvöru að a.m.k. til viðbótar við námslánin verði um styrki að ræða til þeirra sem sérstaklega þurfa á því að halda.

Í skýrslu sem Gunnar Árnason gerði „Frá skóla til atvinnulífs, námsferill í framhaldsskóla“, kemur fram að 85–90% af árgangi á Norðurlöndum innritaðist í framhaldsskóla en minna hlutfall af árgangi á Íslandi hafði útskrifast en jafnaldrar þeirra á Norðurlöndum. Hlutfall þeirra sem hættu á bóknámsbrautum er hæst á Íslandi. Reikna má með því að fjölskylduaðstæður skipti þar verulegu máli. Það kemur reyndar fram í skýrslunni að búseta hafi áhrif á sókn í framhaldsskóla á Íslandi og því ber að fagna því að framhaldsskólum á landsbyggðinni hafi verið fjölgað. Í Borgarnesi er nú að taka til starfa framhaldsskóli, sem er mjög gott og þarft. Ég vona að framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð rísi sem allra fyrst.

Fleira kemur til en fjölskylduaðstæður. Félagslegur bakgrunnur skiptir miklu máli samkvæmt þessari rannsókn Gunnars Árnasonar og fjöldi systkina og tekjur foreldra skipta einnig máli. Þegar spurt var um ástæður brottfalls kom í ljós að barneignir og peningaleysi voru meginástæðurnar. Tölurnar tala auðvitað sínu máli. Fátækir foreldrar eiga erfiðara með að kosta nám barna sinna og eins og ég sagði þá lendir fólk við þetta oft í fátæktargildru.

Það er athyglisvert að skoða skoðun ýmissa mætra manna á ástæðum fyrir mismunandi námsárangri nemenda. Um það er einnig fjallað í skýrslu Gunnars Árnasonar. Til dæmis segir Basil Bernstein að börn með mismunandi uppeldisskilyrði hafi mismunandi talanda og ástæður fyrir takmörkuðu máli leiði til lélegs námsárangurs. Hér er þó kannski ekki um slíka stéttaskiptingu að ræða en við skulum athuga að stéttaskipting í íslensku þjóðfélagi eykst. Munur á lægstu og hæstu tekjum eykst, tekjuhæstu hóparnir rjúka upp en eftir sitja þeir sem minnstar hafa tekjurnar. Þessu tengist spurning sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum spurt: Viljum við þetta norræna velferðarmódel sem við höfum miðað okkur við hingað til eða ætlum við að fara ameríska leið þar sem bilið breikkar og ekki er litið á annað en markaðslögmálin?

Heimspekingurinn mikli Ivan Illich er ekki sáttur við efnahagsþróun nútímans þar sem fólk treystir á aðra, lækna, kennara, fjölmiðla o.s.frv. en ekki sjálft sig, eigin kunnáttu og hefðir. Hann segir að nám eigi að bjóðast þeim sem vilja hvenær sem er, ekki bara í æsku og á unglingsárum. Til þess að svo megi verða verðum við auðvitað að styðja það fólk til náms sem á undir högg að sækja.

Við viljum öll státa af jafnrétti til náms í þjóðfélagi okkar. Það felur m.a. í sér greiðan aðgang að námi á framhalds- og háskólastigi án tillits til efnahags, búsetu og fjölskylduaðstæðna. Þess vegna tel ég þetta mál afar mikilvægt og vona að það fái skjótan framgang í þinginu, betri en á síðasta þingi þegar það dagaði uppi í nefnd. Ég treysti því að hæstv. menntamálaráðherra taki vel í málið og stofni starfshópinn hið fyrsta svo að við getum búið við raunverulegt jafnrétti á Íslandi. Menntunarmálin eru eitt af því mikilvægasta á því sviði.