132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Fiskverndarsvæði við Ísland.

52. mál
[15:17]
Hlusta

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um fiskverndarsvæði við Ísland. Þessi tillaga er flutt af mér og ýmsum valinkunnum þingmönnum Samfylkingarinnar.

Í tillögunni er lagt til að sjávarútvegsráðherra verði falið að setja upp net sérstakra fiskverndarsvæða við Ísland beinlínis í þeim tilgangi að ýta undir vöxt og viðgang þeirra nytjategunda sem við höfum hér við land og hafa skilað miklum verðmætum í þjóðarbúið. Það er grundvöllur þessarar tillögu að verði þessi leið valin verði veiðar á slíkum svæðum alfarið bannaðar. Einnig er lagt til að svæðin verði valin sérstaklega með tilliti til fjölbreytileika og mikilvægis fyrir klak og nýliðun tegundanna sem verndin á að beinast að.

Við flutningsmenn tillögunnar leggjum jafnframt til að samhliða því að fiskverndarsvæðin verði sett á stofn verði ráðist í líffræðilega vöktun og rannsóknir á svæðunum þannig að árangurinn af verndinni verði metinn eftir 5 ár og aftur þegar 10 ár eru liðin frá stofnun svæðanna. Í framhaldi af því, frú forseti, teljum við að það væri farsælt að meta hvort fiskverndarsvæði eigi til frambúðar að verða hluti af stjórnkerfi fiskveiða.

Þessi tillaga er lögð fram í því andrúmslofti að hér á Íslandi og víðar blasir það við að nytjastofnar hafa látið undan síga. Sumir hafa fallið mikið, nokkrir hafa einfaldlega hrunið. Við höfum líka séð að stórir stofnar sem miklar veiðar hafa verið úr á síðustu öldum hafa bókstaflega hrunið eins og sums staðar við Bandaríkin og í Norður-Atlantshafi.

Það hafa verið uppi kenningar um það, frú forseti, að hægt væri að efla vöxt og viðgang nytjastofna með því að setja upp fiskverndarsvæði af þessu tagi. Þessar kenningar hafa verið hluti af óhefðbundinni viðleitni, óhefðbundnum kenningum um það hvernig styrkja megi stofna. Ástæðan er auðvitað sú að andspænis vaxandi fiskveiðiþunga og ofnýtingu í öllum heimshöfum hafa menn farið að leita nýrra leiða. Menn hafa m.a. farið að skoða hvort eitthvað í sögunni bendi til þess að e.t.v. sé hægt að styrkja stofna með öðrum aðferðum en þeim hávísindalegu sem svo eru kölluð á vorum dögum. Sjónir hafa þá beinst að því að frá alda öðli hafa þjóðir sums staðar, eins og t.d. við Fiji-eyjar, nýtt fiskverndarsvæði. Þar hafa veiðar á sumum svæðum alfarið verið bannaðar árhundruðum saman til þess beinlínis að skapa uppsprettu stofna og það hefur gefist vel.

Á seinni árum hefur athyglin ekki síst beinst að fiskverndarsvæðum í kjölfar þess að rannsóknir á svæðum þar sem veiðar hafa verið bannaðar, stundum af öðrum ástæðum en fiskvernd, hafa sýnt að lífmassi hefur aukist verulega og fjölbreytni búsvæða sömuleiðis. Í því sambandi má t.d. nefna svæði sem hefur verið lokað vegna herstöðva — umferð hefur verið bönnuð á hafsvæðum í grennd við herstöðvar og það hefur sjálfkrafa orðið til þess að veiðar hafa verið bannaðar. Sömuleiðis er fróðlegt að rifja það upp að í grennd við Canaveralhöfða, þar sem geimskotasvæði Bandaríkjanna hefur verið síðan 1964, hefur öll umferð verið bönnuð. Í kjölfarið hófu menn rannsóknir á þeim áhrifum sem það bann hefði haft á vöxt fiskstofna sem þar voru undan skaganum. Það vakti mikla athygli þegar það kom í ljós að þar höfðu stofnar vaxið verulega, búsvæði voru vel á sig komin og nýliðun og klak miklu betri en menn höfðu átt von á.

Þó að menn hafi ekki fyrr en á allra síðustu árum farið að skoða þetta rækilega þá hafa lengi verið uppi fræðilegar kenningar um að fiskverndarsvæði gætu skipt verulega miklu máli í því að tryggja viðgang og viðhald stofna. Inntak þessara kenninga er í stuttu máli það að á slíkum svæðum fjölgi einstaklingum tegundanna ört, þeir lifi lengur, verði stærri og hlutfallslega verði miklu meira í stofninum af stórum kynþroska einstaklingum. Þetta á samanlagt að leiða til þess að æxlunargeta stofnsins margfaldast. Kenningin var á þennan veg og einnig átti vernd af þessu tagi að styrkja og auka framboð á fjölbreyttum búsvæðum. Þetta átti allt saman að leiða til þess að nýliðun innan svæðanna yrði meiri en annars staðar og fyrr eða síðar átti það að leiða til þess að fiskgengd yrði meiri í grennd við svæðin, t.d. varðandi þá stofna og tegundir sem eru lítt hreyfanlegar, og síðar eftir því sem fjær dregur svæðunum í tilviki þeirra tegunda sem eru hreyfanlegri.

Reynslan hefur sýnt að þetta gerist. Þéttleikinn vex mjög á svæðum sem njóta verndar eftir því sem lífmassinn byggist þar upp, einstaklingum fjölgar og þeir flytja sig út fyrir svæðin. Þeirra tegunda sem ekki eru mjög hreyfanlegar gætir fyrst og fremst í grennd við svæðin en annarra tegunda, eins og t.d. þorsks, túnfisks og ýsu, gætir stundum hundruðum kílómetra fjær. Rannsóknir sem hófust undir lok síðustu aldar hafa sýnt fram á að kenningar sem ýmsir vísindamenn hafa reifað með fræðilegum hætti án þess að geta vísað í vísindalegar rannsóknir eða gögn sér til stuðnings ganga einfaldlega upp. Það er rétt að geta þess að í nýlegri grein, sem ég sá eftir tvo vísindamenn sem tóku saman fjöldann allan af rannsóknum sem hafa verið gerðar á þessari tegund fiskverndar, var niðurstaðan sú að árangurinn af fiskverndarsvæðunum væri svo góður að ef hægt væri að ráðast í stofnun víðfeðmra fiskverndarsvæða vítt um heiminn væri hugsanlega hægt að snúa við þeirri niðursveiflu nytjastofna sem við nú horfum fram á.

Nú ber að taka vara við svo jákvæðum spám, frú forseti. Ég er ekki fyllilega sannfærður um að það sé beinlínis hægt að ná svo miklum árangri en ég vil fyrir fram ekki neita því. Í öllu falli er ljóst að hér er um óhefðbundnar kenningar að ræða og óhefðbundnar aðferðir við vernd fiskstofna sem okkur ber skylda til að gefa gaum. Þegar ég fer yfir þann litteratúr sem tengist fiskifræðum tek ég eftir því að sennilega hefur engin grein fiskifræðinnar verið í jafnörum vexti á síðustu 10 árum. Ótrúlegur fjöldi greina hefur hrannast upp í virtum og merkum vísindaritum sem bendir til þess að hér sé um að ræða leið sem alla vega skiptir það miklu máli að hana beri að skoða.

Með vissum hætti höfum við Íslendingar að einhverju leyti stundað vernd af þeim toga sem hér er lagt til að við tökum upp í stórum mæli. Hér hafa verið árleg tímabundin veiðibönn á svæðum sem eru álitin sérlega mikilvæg fyrir hrygningu þorsks, t.d. innarlega í Breiðafirði sem er í kjördæmi tveggja hv. þingmanna sem eru hér í salnum og hlýða á mál mitt í dag. Sömuleiðis hafa menn um langan aldur beitt tímabundnu veiðibanni á svæðum þar sem mikinn smáfisk hefur verið að finna eða þá þar sem hrygning fer fram, á svæðum sem eru talin sérstaklega mikilvæg fyrir viðgang tegunda. Ég held að frumkvæði að þessu hafi yfirleitt, a.m.k. í upphafi þessara aðferða, komið frá sjómönnum sem hafa þekkt hafsvæðin best og hafa haft tilfinningu fyrir því hve mikilvæg þau eru fyrir vöxt og viðgang viðkomandi tegunda. Þó að reynslan af þessum svæðum hafi ekki verið metin vísindalega — hugsanlega er farin af stað vinna við það núna — hefur hún verið talin það góð að fiskvernd af þessu tagi hefur verið viðhaldið.

Annars staðar í heiminum hafa menn notað þessa aðferð. Ég gat í upphafi máls míns sérstaklega um dæmið frá Fiji-eyjum þar sem veiðibann á uppeldisstöðvum hefur verið notað frá alda öðli til að efla veiðar á miðum í grenndinni. Reynslan af því hefur að mati þarlendra sjómanna, og reyndar síðar að mati fiskifræðinga, verið það góð að þar eru fiskverndarsvæðin beinlínis nýtt sem hluti af stjórnkerfi fiskveiða.

Ég nefndi það áðan að menn hefðu öðlast góða reynslu og orðið dálítið hissa þegar þeir fóru að skoða áhrifin á stofnana á svæðinu sem var lokað í grennd við geimskotsstöðina á Canaveralhöfða í Flórída. Það er mikilvægt að vísa til þeirrar rannsóknar því að ég held að ekkert jafnstórt svæði hafi verið lokað jafnlengi. Því hefur nú verið lokað fyrir allri umferð og veiðum í meira en fjóra áratugi. Um er að ræða næstum því 20 þúsund ferkílómetra. Fyrstu rannsóknirnar skiluðu ákaflega jákvæðum upplýsingum sem bentu til þess að þessi leið væri ótrúlega góð hvað varðar vernd stofna.

Á allra síðustu árum, ekki síst eftir hrun stórra stofna á mikilvægum miðum sums staðar við Kanada, t.d. við Nýfundnaland, hafa mikil hafflæmi verið sett undir fiskvernd. Tilgangurinn hefur fyrst og fremst verið sá að byggja upp stofna sem eru samansettir af langlífum tegundum með það fyrir augum að auka fiskveiðar síðar. Vísbendingarnar sem þegar hafa komið fram — það er skammt síðan ráðist var í þetta — benda til þess að þetta sé góð aðferð til að auka þorskveiðar. Mér er sagt, án þess að ég hafi beinlínis lesið um það fræðilegar greinar, að undir það síðasta hafi komið fram með mjög afdráttarlausum hætti enn frekari vísbendingar um þetta.

Árið 2002 tóku tveir vísindamenn, sem hafa einkum verið í fararbroddi þessara rannsókna og þessa straums innan fiskifræðinnar, Róbert Warner og Benjamin Halpern, saman mikið yfirlit um öll þau gögn sem þeir komust yfir um áhrif fiskverndarsvæða. Það er óhætt að segja að niðurstöðurnar voru sláandi. Þeir byggðu á niðurstöðum 112 ótengdra mælinga á áhrifum 80 mismundandi fiskverndarsvæða. Í ljós kom að á þessum svæðum var fiskurinn 91% þéttari, lífþyngdin var 192% meiri og meðalstærð og fjölbreytileiki tegundanna var 20–30% meiri. Þetta eru auðvitað sláandi tölur en það ber að ítreka að hér er einungis um að ræða tölur yfir stöðuna á verndarsvæðunum sjálfum. Kenningin gengur út á það að þegar stofnarnir byggjast upp með þessum hætti þá dreifi þeir sér víðar, bæði með því að lirfur berast vítt fyrir straumum og hrogn sömuleiðis, sviflæg hrogn, en einnig að tegundir sem eru vel hreyfanlegar flytji sig smám saman frá og verði þannig undirstaða veiða. Að þessari reynslu fenginni má halda því fram að svæði af þessu tagi geti skipt töluverðu máli og sérstaklega í því að halda uppi veiði á staðbundnum stofnum.

Það hefur líka komið fram að það skiptir ekki máli þó að svæðin séu lítil. Þau hafa áhrif alls staðar í kringum sig. Þó að æskilegt væri að menn réðust í að stofna töluvert stór fiskverndarsvæði er það samt sem áður þannig að lítil svæði sem eru víða skipta máli fyrir fiskvernd og uppbyggingu fiskstofna.

Frú forseti. Ég vil líka sérstaklega vekja eftirtekt á því að þessi tillaga er fullkomlega í samræmi við ýmiss konar samþykktir sem hafa verið gerðar um umhverfismál á alþjóðavísu. Það er athyglisvert að á leiðtogafundinum um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg árið 2002 var sérstaklega rætt um og teknar ákvarðanir um að stefna að því að stofna sem víðast verndarsvæði í hafinu. Ég held að flestir þeir sem tóku þátt í þessum hluta umræðnanna á fundinum hafi að lokum orðið á einu máli um mikilvægi þess, fyrir búsvæði hafsins, fyrir líffræðilegan fjölbreytileika og eflingu nytjastofna, að setja á laggirnar svæði af þessum toga.

Það má segja að við Íslendingar höfum með vissum hætti ákveðnum skyldum að gegna til að uppfylla þessar alþjóðlegu skuldbindingar. Það var nefnilega hér í Reykjavík, á alþjóðlegum fundi sem haldinn var árið 2001 og bar yfirskriftina Ábyrgar fiskveiðar í vistkerfi sjávar, sem þessi mál voru kannski í fyrsta skipti tekin á dagskrá alþjóðasamfélagsins. Þar var samþykkt ákveðin stefna í þessum efnum sem leiðtogafundurinn í Jóhannesarborg vísaði til. Sú tillaga sem við flytjum er því í rökréttu framhaldi af alþjóðlegum skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa ekki bara tekið á sig heldur líka haft ákveðið frumkvæði að.