132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Fiskverndarsvæði við Ísland.

52. mál
[15:57]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um fiskverndarsvæði við Ísland. Hér er lagt til að myndað verði net svæða umhverfis landið og þau svæði verði síðan alfarið vernduð fyrir veiðum, veiðar verði alfarið bannaðar á þeim svæðum. Samhljóða þessu verði hafnar rannsóknir til að fylgjast með lífríkinu og hvernig gangi, hvernig þróunin er og síðan verði árangurinn metinn eftir fimm ár og svo aftur þegar tíu ár eru liðin frá því að svæðin hafa verið stofnuð. Síðan yrði tekin afstaða til þess hvort þetta sé aðgerð sem gæti skilað einhverju þegar verndun hafsins er annars vegar, uppbygging fiskstofna og annað þess háttar.

Í sjálfu sér, virðulegi forseti, er þetta alls ekki svo galin hugmynd þegar maður skoðar hana almennt. En þegar maður fer að hugsa þetta nánar finnst mér að það væri kannski frekar þörf á að breyta þingsályktunartillögunni þannig að mælt væri með því að farið yrði út í að rannsaka hverju svæðalokanir við Ísland hafa skilað í gegnum árin. Það er nefnilega þannig að þegar maður skoðar opinberar skýrslur sér maður að ákveðin svæði hafa verið friðuð, bæði á landgrunninu en líka í landgrunnsköntunum, um margra ára skeið t.d. fyrir botnvörpuveiðum og líka fyrir línuveiðum. Sums staðar hafa svæði verið alfriðuð bæði fyrir línuveiðum og botnvörpuveiðum árið um kring í mörg ár. Ég gæti nefnt svæði norðaustur af Horni. Við getum talað um Sporðagrunn út af Norðurlandi. Við getum talað um svæðin norður af Haganesvík, við getum talað um Langanesgrunn, Digranes og svæði við Hrollaugseyjar. Þessi svæði eru öll sömul svæði sem hafa verið lokuð mjög lengi bæði fyrir togveiðum og línuveiðum.

Mér er ekki kunnugt um að það hafi verið rannsakað neitt sérstaklega á þessum svæðum hvort þessar svæðalokanir hafi í raun og veru skilað einhverju og hvort þær hafi til að mynda skilað árangri eins og hér er nefndur með tilvitnun í svæði sem öll eru í Suðurhöfum, þ.e. í hlýsjó sem hefur orðið til þess að svæði sem hafa verið friðuð með þessum hætti hafa byrjað að framleiða ef svo má segja fisk og nytjastofna sem síðan hafa verið nýttir utan þessara svæða. Þessi hugmynd hefur gengið upp og það er alveg hárrétt sem bent er á í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu að þarna hefur þetta gengið upp.

Ég hefði gjarnan viljað sjá, virðulegi forseti, rannsóknarniðurstöður sem sýndu fram á að þær svæðalokanir sem við höfum þó verið með hér á landi mörg undanfarin ár hefðu skilað árangri. Hérna er til að mynda kort og ég hef merkt með gulu hólfin í kringum landið þar sem botnvörpuveiðar eru alfarið bannaðar allt árið og auk þess svæði þar sem botnvörpuveiðar eru bannaðar hluta af árinu. Og hér er síðan kort sem sýnir hólf í kringum landið þar sem línuveiðar eru alfarið bannaðar. Þetta eru umtalsverð svæði. Ég hygg, virðulegi forseti, að þetta ætti að rannsaka og það má vel vera að við mundum sjá mjög athyglisverða þætti í slíkum rannsóknum og að þetta hefði skilað einhverju. Hins vegar er það líka svo og ber að líta á það að aðstæður hér við land eru á margan hátt svolítið öðruvísi en í Suðurhöfum, til að mynda á svæðum sem nefnd eru í greinargerðinni, kóralsvæði og annað, þar sem eru staðbundnir fiskstofnar, svæðisbundnir krabbastofnar o.s.frv. Þetta eru í raun og veru allt öðruvísi aðstæður en hér við land þar sem nánast allir eða allir fiskstofnar í kringum landið eru flökkustofnar, fiskstofnar sem eru á fleygiferð um hafið til og frá og því er kannski erfitt að afmarka eitthvert svæði þar sem við segjumst ætla að friða alla fiska á því svæði vegna þess að allir þeir fiskar sem voru á svæðinu þann dag sem reglugerðin gengur í gildi hafa synt eitthvert allt annað daginn eftir.

Þetta eru spurningar sem hægt er að velta fyrir sér í framhaldi af þessu en þingsályktunartillagan er í sjálfu sér þörf. Hún vekur mann til umhugsunar og vonandi mun hún skapa umræðu. Það verður til að mynda mjög gaman að sjá þær umsagnir sem munu berast um þessa þingsályktunartillögu, t.d. hvaða skoðun ýmsir hagsmunaaðilar hafa á þessari hugmynd og líka hvaða innlegg þeir treysta sér til að koma með inn í umræðuna.

Mér finnst þetta líka gefa tilefni til þess einmitt að ræða aðeins hvernig við stýrum fiskveiðum hér við land, hvernig fiskveiðistjórninni er háttað, hvernig nýtingarstefnunni á fiskstofnum er háttað. Ég hef margoft sagt það áður í þessum ræðustól og annars staðar á opinberum vettvangi, í fjölmiðlum og á minni eigin heimasíðu, að ég tel að hér hafi ansi margt farið miður á undanförnum árum. Ég held að kannski væri mest þörf á því núna að við hér á Alþingi stöldruðum við og ræddum opinskátt og undanbragðalaust hvað við höfum gert rangt því það getur ekki verið að við höfum verið að gera margt rétt þegar við lítum yfir það hvernig staðan er. Hún er alls ekki björt, því miður, þorskstofninn er í sögulegu lágmarki og engar horfur á öðru en að stofninn muni halda áfram að minnka og fari þá langt niður fyrir það sem við köllum sögulegt lágmark í dag. Flatfiskstofnar eru í mjög slæmu ásigkomulagi, rækjustofnarnir eru hrundir, hörpudisksstofninn er hruninn, loðnustofninn er hugsanlega hruninn, loðnan er ekki fundin enn þá og nú er runninn upp 19. janúar. Loðnuvertíð ætti að vera hafin af fullum krafti ef allt væri með eðlilegum hætti en ekkert hefur sést til loðnunnar enn þá.

Þrátt fyrir þetta ætla menn að halda áfram að höggva í sama knérunn því að í hádeginu bárust fréttir af því að menn væru enn að veiða loðnu. Þó að ýmislegt bendi til að stofninn geti hugsanlega verið hruninn skal enn áfram haldið og menn eru enn þá að veiða. Stærsta fiskiskip flotans hefur tilkynnt um afla, 500 tonna afla sem veiddur var í flottroll, önnur skip hafa tilkynnt um loðnuafla á undanförnum dögum. Menn stunda þessar veiðar undir því yfirskini að þeir séu með eins konar tilraunaveiðar. Þetta er náttúrlega algjört glapræði og halda mætti að þarna væru hreinlega vitskertir menn á ferð, því ef svo er að loðnustofninn sé hruninn, ef svo er að það sé mjög lítið af loðnu að koma til hrygningar núna þá er það algert glapræði að veiða þær fáu loðnur sem hugsanlega eru eftir með þessum stórvirku veiðarfærum, mæta loðnunni þegar hún kemur yfir landgrunnið með gríðarlega stórum veiðarfærum á ofboðslega stórum skipum með miklu vélarafli, sía sjóinn fram og til baka, splundra þessum fiski, tefja för hans upp að ströndinni og stuðla þannig jafnvel að því að loðnan hreinlega skili sér ekki upp á landgrunnið í þeim mæli sem vonast er til.

Ég minni á að þegar síldveiðar hrundu hér á sjöunda áratugnum, bæði norsk-íslenska síldin og íslenska sumargotssíldin, skall hurð mjög nærri hælum, ekki síst með íslensku síldina, að mönnum tækist hreinlega að veiða stofninn upp því að þetta eru torfufiskar og það er mjög auðvelt að halda áfram, eins og tæknin er orðin í dag, að veiða og veiða þangað til síðasta torfan hefur verið veidd. Ef loðnan hrynur hér við land er fram undan algjört hrun í fiskveiðum við Ísland.