132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Fiskverndarsvæði við Ísland.

52. mál
[16:09]
Hlusta

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu þakka þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í henni. Ég er ánægður með þær jákvæðu undirtektir sem málið hefur fengið hjá öllum þeim sem hér hafa tekið til máls.

Hv. þm. Magnús Þór hafsteinsson velti því fyrir sér hvort sömu lögmál ættu við hér í Norðurhöfum þar sem sjór er miklum mun kaldari en sunnar á hnettinum þar sem fiskverndarsvæði hafa nú þegar verið sett upp og þótt gefa góða raun. Það kemur auðvitað í ljós. Ég tel hins vegar að það sé ekkert sem sé öðruvísi í lífkerfinu sem geri það að verkum að einhverjar líkur séu á því að þetta gangi ekki hér með svipuðum hætti og vísbendingar gefa til kynna að það gangi annars staðar.

Hv. þingmaður nefndi sérstaklega að í hafinu við Ísland væru fyrst og fremst flökkustofnar sem færu hratt yfir og flyttu sig ört á milli staða. Nú er það svo að þessi tillaga er ekki síst sett upp með hliðsjón af þeirri staðreynd að æ fleiri vísbendingar hafa birst í rannsóknum um það hér á Íslandi að stofnar hinna ýmsu nytjategunda við landið séu í raun miklu staðbundnari en menn gerðu áður ráð fyrir. Við höfum t.d. fyrr á yfirstandandi þingi rætt um það í tengslum við tillögur sem hv. þingmenn Frjálslynda flokksins fluttu um skoðun á færeysku leiðinni svokölluðu við stjórn fiskveiða að hér væru víða staðbundnir stofnar þorsks. Við höfum séð að það er margt sem bendir til þess að hér séu miklu fleiri, hugsanlega litlir, þorskstofnar, hugsanlega stórir, það vitum við ekki vegna þess að rannsóknir liggja ekki fyrir, sem séu miklu bundnari við svæði en menn töldu áður. Ég held að sú sé raunin og hef reyndar verið þeirrar skoðunar mjög lengi. Ég minnist þess jafnan að þegar minn ágæti kennari við Háskóla Íslands, þegar ég lærði þar líffræði á sínum tíma, Jakob Jakobsson, sem síðar varð forstjóri Hafrannsóknastofnunar, var að kenna okkur þá taldi hann að svo væri en undirstrikaði að ekki væru til rannsóknir sem staðfestu það rækilega. Nú hafa verið gerðar rannsóknir þó að í smáum stíl sé sem benda til að svo sé. Ef það er þannig á þessi tillaga raunar miklu fremur rétt á sér en ella. Ljóst er að hér eru staðbundnir nytjastofnar og ég er alveg sannfærður um að þeir Íslendingar sem eru að veiða úr þessum stofnum mundu hafa mjög gott af því að svona svæði yrðu sett upp.

Hv. þingmenn nefndu það hér, einkum þingmenn Frjálslynda flokksins, að æskilegt væri að ráðast í rannsóknir á áhrifum þeirra svæða sem veiðibann hefur tíðkast á. Það er hárrétt hjá þeim, það væri mjög æskilegt að fyrir lægju rannsóknir um hvaða áhrif slík svæði og slík bönn, tímabundin eða varanleg, hafa hér við land. Við undirbúning þessarar tillögu hafði ég hins vegar spurnir af því að þetta væri einmitt byrjað hjá Hafrannsóknastofnun í dag, því miður vonum seinna en er þó hafið. Í öllu falli er sú tillaga sem hér liggur fyrir vísir að því, því að gert er ráð fyrir að eftir tiltekinn tíma verði ráðist í að meta afleiðingar og afrakstursaukningu eða breytingar á afrakstri svæða í grennd við fiskverndarsvæði og síðan jafnframt að tíu árum loknum taka ákvörðun um hvort þau séu messunnar virði. Hér er ekki verið að slá í gadda að það eigi endilega að gera þetta að hluta af fiskveiðistjórnarkerfinu, hins vegar tel ég, miðað við þær vísbendingar sem eru uppi, að þetta gæti orðið mjög nytsamur partur af því í framtíðinni.

Ég tek undir með hv. þm. Frjálslynda flokksins, Sigurjóni Þórðarsyni, að það þurfi að skoða þetta mjög rækilega og ekki síst tek ég undir með honum þegar hann segir að æskilegt sé að stokka spilin upp á nýtt og skoða með opnum huga hvernig það kerfi nýtist okkur sem við búum við í dag. Ég held að það hafi margoft komið hér fram hjá þingmönnum allra flokka, m.a. í vetur, að menn séu ekki mjög trúaðir á að þau vísindi sem við búum við í dag séu jafnnákvæm og menn töldu áður, sumir okkar og vissulega fræðimenn. Þetta þarf að nálgast með nýjum hætti. Leyfa þarf nýjum hugmyndum að flæða inn í þessa grein. Hér er um að ræða nýjan hugmyndastraum, óhefðbundinn, en ég held að það sé mjög jákvætt að við samþykkjum þessa tillögu og ég held að það sé almennt mjög jákvætt að við skoðum þetta allt saman með nýjum huga. Þetta er önnur tillagan í vetur sem lýtur að því, hinar tillögurnar fluttu þeir hv. þingmenn sem ég nefndi áðan, Sigurjón Þórðarson og Magnús Þór Hafsteinsson frá Frjálslynda flokknum. Báðar tillögurnar miða að því að skoða stöðuna með gagnrýnum huga og reyna að leiða inn ný viðhorf því það er alveg ljóst að eins og staðan er í dag hafa vísindin sem við höfum byggt á ekki gagnast okkur nægilega vel. Það er þess vegna sem ég leyfi mér að hvetja þingheim til að samþykkja þessa tillögu. Ég held að hún sé að mörgu leyti mjög gagnleg.