132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Fiskverndarsvæði við Ísland.

52. mál
[16:16]
Hlusta

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson spyr hvort við flutningsmenn höfum velt fyrir okkur hvaða svæði koma til greina. Í aðdraganda þessarar tillögu hef ég, sem fyrsti flutningsmaður, velt því aðeins upp með ýmsum málvinum mínum úr líffræðingahópnum hvar þau gætu verið. En ég tel ekki rétt að ég setji fram neina kandídata. Það er hugsanlegt að ýmsir gjaldi varhuga við tillögu sem þeir gætu túlkað með þeim hætti að það ætti fyrst og fremst að miða að því að loka einhverjum svæðum í grennd við þeirra heimastöðvar. Það verður að segjast eins og er að þegar ég var að tala við menn á landsbyggðinni og var að afla gagna þá fannst mörgum þetta góð hugmynd en vildu helst ekki hafa þetta nálægt sér.

En við leggjum áherslu á að valið verði sem fjölbreytilegast, að þessi svæði verði bæði uppi á grunninu inni á fjörðum en líka úti í köntum. Ég held að það sé sérfræðinga að velja það og kannski hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson gæti komið að því í nefndinni. Ef ég man rétt situr hann í hv. sjávarútvegsnefnd og getur þar af leiðandi komið með sínar tillögur þar.

Ef þessi tillaga yrði samþykkt yrði hugsanlega harðast deilt um það hvar ætti að setja upp slík svæði. Það er því miður þannig, og sérstaklega er það nú reynsla mín af sjávarútvegi, að þar takast á hagsmunir sem oft er erfitt að sameina og samrýma. Ég vona samt að okkur takist það.