132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Fiskverndarsvæði við Ísland.

52. mál
[16:18]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má vel vera að ég geti komið með góðar tillögur í sambandi við þetta. Mér finnst t.d. athyglisvert að velta fyrir mér, og hef reyndar oft gert það, hvort ekki væri rétt að innleiða svona fiskverndarsvæði þar sem veiðar væru þó ekki alfarið bannaðar. Því eins og bent hefur verið á mundi það kannski valda vandkvæðum í litlum sjávarplássum sem eru háð miðum skammt undan. Það yrði óvinsæl aðgerð að loka þeim algerlega fyrir veiðum.

Ég hefði viljað sjá að við hugsuðum hlutina upp á nýtt og prófuðum okkar áfram með nýjar aðferðir og tækjum út svæði og færum út í fiskifræðilegar aðgerðir ef svo má segja. Gerðum til að mynda tilraunir í ákveðnum fjörðum. Prófuðum ýmsar kenningar eins og grisjunarkenningu Jóns Kristjánssonar. Sæjum hvernig hún kæmi út. Tækjum fyrir ákveðinn fjörð, við getum nefnt Hvalfjörðinn t.d., og reyndum að sannreyna með verkefnum sem stæðu yfir í einhver ár hvort auknar veiðar t.d. á ýsu, sem þar er, mundu skila sér í betri vexti hjá ýsunni sem yrði eftir, eins og Jón hefur verið að benda á. Þá væri hægt að sannreyna að réttu viðbrögðin við merkjum um fæðuskort hjá fiskstofni séu ekki þau að friða stofninn heldur einfaldlega að veiða meira þannig að þeir fiskar sem eftir eru hefðu meira að bíta og brenna og mundu ná auknum vexti og þannig næðum við fram meiri framleiðni úr fiskstofninum. Því miður er það svo að íslensk stjórnvöld hafa aldrei viljað hlusta á svona hugmyndir og Jón hefur mætt mikilli andspyrnu með sínar kenningar. Það er alger fásinna því það er fyllilega þess virði að skoða þessa hluti og gera vísindatilraunir sem mundu þá einfaldlega sannreyna hvort hann hefur rétt fyrir sér eða rangt.