132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Fiskverndarsvæði við Ísland.

52. mál
[16:20]
Hlusta

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður tekur hér upp mjög athyglisverða hugmynd frá Jóni Kristjánssyni fiskifræðingi. Við höfum stundum rætt um þær hugmyndir sem hann hefur sett fram í þessum sölum og ekki bara í vetur heldur töluvert lengi. Sá ágæti fræðimaður hefur sett fram kenningar sem eru óhefðbundnar og hafa mætt miklum mótbyr innan vébanda Hafrannsóknastofnunar og innan þess samfélags sem segja má að sjávarútvegsráðuneytið hafi haldið verndarhendi yfir. Sú tillaga sem hv. þingmaður reifar hér, að loka ákveðnu svæði og kanna hvort það hefur áhrif á stærð og þunga einstaklinganna með stjórnun á sókn, er allrar athygli verð. Hún gerir að öllum líkindum þá kröfu til þess svæðis sem valið er og stofnsins að hann sé tiltölulega staðbundinn og lokaður. Ekki efa ég, ef hv. þingmaður hefur það eftir Jóni Kristjánssyni, að slíkt sé unnt að gera í Hvalfirði.

Ég tel alla vega að hugmyndir af þessu tagi ýti undir grósku í hugsun innan greinarinnar. Það er það sem mér finnst skorta á. Menn eiga að koma með hugmyndir, gagnrýna og leyfa sér þann munað að kasta fram hugmyndum sem í fljótu bragði kunna að virðast töluvert fjarri rótum hinnar hefðbundnu hugsunar í greininni. Með því að leyfa flæðinu að fara frjálst um og leyfa mönnum að spreyta sig og reyna að skoða vísindalega nýjar hugmyndir af þessu tagi fleytum við best fram þróun greinarinnar. Það hefur skort á þetta. Það hafa verið eins konar virkismúrar í kringum Hafrannsóknastofnun sem fáir hafa fengið að klífa inn fyrir. Það hefur leitt til ákveðinnar kredduhugsunar, að því er mér finnst, innan stofnunarinnar. Við þurfum að brjóta það upp.