132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

66. mál
[16:45]
Hlusta

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um samkeppnisstöðu fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga. Er ég flutningsmaður ásamt hv. þingmönnum Ástu Möller og Gunnari Örlygssyni.

Tillagan er stutt, hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela viðskiptaráðherra að gera athugun á því hvort og á hvaða sviðum fyrirtæki í eigu ríkis og sveitarfélaga eru í samkeppni gagnvart einkaaðilum, einnig að kanna hvort þessi fyrirtæki hafi eflt samkeppnisstöðu sína gagnvart einkafyrirtækjum á undanförnum árum.

Ráðherra skili Alþingi skýrslu um málið fyrir 1. apríl 2006.“

Málið er í sjálfu sér ekki flókið en afskaplega þarft. Það var flutt á á 131. löggjafarþingi og í greinargerð með tillögunni þá segir svo, með leyfi forseta:

„Stofnunum ríkisins hefur fjölgað og rekstur þeirra orðið æ umfangsmeiri á undanförnum árum. Sökum umfangs síns hefur rekstur ríkisins mikil áhrif á starfsumhverfi og starfsmöguleika fyrirtækja í landinu. Ýmsar vísbendingar hafa komið fram um það á síðustu missirum að ríkisstofnanir séu að teygja anga sína inn á fleiri svið sem einkafyrirtæki hafa eða geta alfarið sinnt. Stundum má rekja verkefni þessara stofnana til aukinna skyldna sem á þær eru lagðar samkvæmt lögum. Dæmi eru þó um að aukin verkefni ríkisstofnana stafi af rúmri túlkun á þeim lögum sem þær starfa eftir. Í sumum tilvikum hafa ríkisstofnanir þannig farið í beina samkeppni við einkaaðila um verkefni. Þá hefur þess gætt að ríkisstofnanir hafi í auknum mæli tekið yfir eða falið annarri ríkisstofnun verkefni sem þær hafa áður falið einkaaðilum. Ríkisstofnanir virðast jafnframt bjóða minna út en áður.

Með þessari útvíkkun á starfsemi opinberra fyrirtækja standa stjórnvöld beint eða óbeint að því að þrengja að starfsemi einkafyrirtækja í landinu í stað þess að hlúa að þeim og skapa þeim eðlilegt svigrúm til að vaxa og dafna í heilbrigðu samkeppnisumhverfi. Það gætu þau m.a. gert með því að leitast við að skipta við einkafyrirtæki sé þess nokkur kostur og efla þannig atvinnulíf á Íslandi.

Skoða þarf hvort lögbundnar skyldur stofnana kalli á sífellt meira umfang þeirra og hvort lagabreytinga sé þörf. Jafnframt þarf að skoða hvað af lögbundnum verkefnum ríkisstofnana er hægt að fela einkaaðilum. Það væri í samræmi við innkaupastefnu ríkisins. Í formála að riti fjármálaráðuneytisins Innkaupastefna ríkisins – Hagkvæmni, samkeppni, ábyrgð og gagnsæi, frá nóvember 2002, segir fjármálaráðherra eftirfarandi:

„Ríkisstjórnin leggur áherslu á framkvæmd innkaupa, þannig að tryggt verði að öll opinber innkaup verði hagkvæm, opin, ábyrg og sanngjörn. Tilhögun innkaupanna miði að því að efla samkeppni á markaði ... Með því að fela einkaaðilum tiltekin verkefni er hægt að ná fram markmiðum um hagræðingu og aukna samkeppnishæfni og auka fjölbreytni þjónustunnar sem byggir upp þekkingu í þjóðfélaginu og nýtist öðrum aðilum á markaði. Innkaupastefnan nær því einnig til þess að bjóða út verkefni eða rekstrarþætti sem nú eru hluti af ríkisrekstri.““

Eins og ég nefndi áðan er þetta afskaplega þarft mál af mörgum ástæðum. Við þekkjum að undanfarin ár hafa menn sem betur fer unnið jafnt og þétt að því, sérstaklega hjá ríkinu en þó má einnig nefna dæmi hjá sveitarfélögum, að einkavæða fyrirtæki. Ég held að enginn geti haldið öðru fram en að það hafi verið afskaplega gæfurík spor. Kannski er skýrasta dæmið með bankana, en eftir að þeir komust í hendur einkaaðila, í eign almennings, þá fengu þær stofnanir aukinn kraft með því frelsi sem því fylgir og hafa bæði getað veitt viðskiptavinum sínum betri þjónustu og á sama hátt farið út í aukna útrás eins og menn þekkja og hafa skapað aukin verðmæti í landinu.

Á sama hátt hafa smærri fyrirtæki verið einkavædd með góðum árangri. En það sem gleymist kannski stundum er að ýmislegt skiptir máli þó að það sé ekki stórt, og það er ein ástæðan fyrir því að við flytjum þessa tillögu, en mörg smærri fyrirtæki finna fyrir því að opinberar stofnanir sem veita þjónustu á ýmsum sviðum hafa verið að seilast inn á þeirra markað ef þannig má að orði komast og slík samkeppni er ávallt ójöfn. Það er mjög erfitt fyrir litla aðila að gæta hagsmuna sinna þegar slíkt kemur upp. Til dæmis að fara í málaferli við opinberar stofnanir og jafnvel bara að standa í bréfaskriftum og öðru slíku sem krefst fyrirhafnar, tíma og fjármuna. Ég tala nú ekki um ef menn ætla að fara alla leið hvort sem menn fara til samkeppnisyfirvalda eða dómstóla þá er slíkt mjög dýrt og erfitt fyrir litla einkaaðila.

Það er mjög mikilvægt að vera vakandi á þessu sviði og þess vegna er þetta mál til komið, þar sem umhverfið er alltaf að breytast í hinum opinbera rekstri líkt og hjá okkur í þjóðfélaginu. Ýmislegt af því sem menn töldu fráleitt að einkaaðilar gætu sinnt fyrir nokkrum árum, ég tala ekki um áratugum síðan, er nú sjálfsagt. Síðan koma auðvitað ný svið sem ekki voru til staðar og það er ekkert sjálfgefið að hið opinbera þurfi alltaf að veita þá þjónustu jafnvel þó að þeir ætli að borga fyrir hana. Þvert á móti er mjög æskilegt að fá samkeppni á sem flestum sviðum og fá sem flesta aðila að því borði, samkeppni er fyrst og fremst til vegna þess að hún er góð fyrir kaupandann og góð fyrir neytendur. Á sama hátt er margt hæft fólk á ýmsum sviðum sem getur allt eins farið í útrás eins og þau fyrirtæki sem nú eru í slíkri iðju og útrás getur falið í sér ýmsa þætti. Viðkomandi aðili eða fyrirtæki þarf ekki alltaf að fara með starfsemi sína út úr landinu, þetta getur líka falist í því, virðulegi forseti, að menn veiti t.d. erlendum aðilum þjónustu sem ella mundu nýta sér hana annars staðar. Þegar ég tala um slíkt er ég t.d. að vísa til heilbrigðissviðsins en nú þegar er veitt ýmis konar heilbrigðisþjónusta á vegum einkaaðila.

Ég las grein í blaði fyrir nokkrum dögum um útgerðarmann frá einhverju nágrannalandi okkar sem nú býr í Grindavík og er hér til þess að leita sér lækninga í Bláa lóninu. Þarna er dæmi um útrás þar sem reynt hefur verið að fá til landsins aðila sem starfsemi Bláa lónsins getur annast og í mörgum tilfellum bætt líðan og jafnvel læknað, og þetta hefur gengið alveg ágætlega.

Í greinargerðinni eru nefnd ýmis fyrirtæki, þetta er ekki nein vísindaleg könnun, kannski meira af handahófi en eru þó dæmi um að opinberir aðilar hafa farið inn á svið þar sem einkaaðilar hafa verið áður, hafa jafnvel farið í beina samkeppni við einkaaðila eða sinnt þeim á sviðum sem einkaaðilar gætu hæglega sinnt. Hér eru t.d. nefnd fyrirtæki eins og Landmælingar, rannsóknastofur Landspítala – háskólasjúkrahúss sem samdi beint við Heilsugæslu í Reykjavík um ákveðna þjónustu sem einkaaðilar sinntu áður, nei, fyrirgefið öfugt, Heilsugæslan í Reykjavík samdi beint við rannsóknastofur Landspítala – háskólasjúkrahúss í stað þess að bjóða það út eða skipta við þá aðila sem hún skipti við áður. Siglingastofnun er nefnd, Vinnueftirlit ríkisins og hér er talað um, sem ég vek athygli á og ætla að lesa hér upp, með leyfi forseta:

„Skilgreina þarf hlutverk Landspítala – háskólasjúkrahúss í þá veru að sjúkrahúsið sjái fyrst og fremst um sérhæfða sjúkrahúsþjónustu. Bjóða þarf út rekstur sem flestra þjónustuþátta sem falla utan kjarnastarfsemi Landspítalans. Sem dæmi má nefna rekstur þvottahúss, saumastofu, eldhúss, mötuneytis, apóteks, röntgen- og rannsóknaþjónustu, framleiðslu sjúkrafæðis, ræstingu, sótthreinsun og umsjón fasteignar. Góð reynsla, bæði fagleg og fjárhagsleg, er af einkarekstri í starfsemi sem áður var eingöngu veitt á vegum heilbrigðisstofnana ríkisins. Má þar meðal annars nefna Læknisfræðilega myndgreiningu og Orkuhúsið. Frá því að starfsemi hjá Læknisfræðilegri myndgreiningu hófst árið 1993 hafa sparast rúmlega 580 millj. kr., auk þess sem þjónusta við sjúklinga hefur aukist til mikilla muna“

Það sparast rúmlega 580 millj. kr., hvorki meira né minna, og þjónustan hefur sömuleiðis aukist.

Hér er vísað í útboð hjá Sorpu vegna gámaþjónustu en þrjár endurvinnslustöðvar tóku þátt í því útboði, auk Vélamiðstöðvarinnar sem á þeim tíma hafði ekki farið inn á þetta svið fyrr en fyrirtækið var þá í eigu Reykjavíkurborgar og Orkuveitu Reykjavíkur. Stjórn fyrirtækisins var m.a. skipuð af borgarverkfræðingi Reykjavíkur og forstjóra Orkuveitunnar. Það er skemmst frá því að segja að þegar Vélamiðstöðin fékk þetta verkefni urðu þar mjög miklar deilur. Þetta mál flýtti því örugglega að einkavæða Vélamiðstöðina, sem var tillaga frá okkur sjálfstæðismönnum sem var búin að liggja lengi í skúffu, en hún var seld núna sl. nóvember og er það vel.

Þetta er samt sem áður dæmi um það sem þessi skýrsla gæti ef til vill komið í veg fyrir að gerðust aftur.

Það má nefna ýmislegt fleira. Hér liggur t.d. fyrir þinginu þingsályktunartillaga um lagabreytingu eða frumvarp um breytingu á lögum um Ríkisendurskoðun sem sá sem hér stendur er 1. flutningsmaður að. Þar er talað um að breyta þessari ágætu stofnun Ríkisendurskoðun, sem er afskaplega mikilvæg og hefur sinnt hlutverki sínu vel, með þeim hætti að ytri endurskoðun á þeim fyrirtækjum sem stofnunin sér um sem ríkisfyrirtæki, verði boðin út. Ríkisendurskoðun sinnir fyrst og fremst innri endurskoðun sem hún hefur gert af mikilli prýði og er nauðsynlegt að hafa og ekki deilur um það að stofnunin sjái um slíkt. En það er ekkert sem mælir með því að ytri endurskoðun á hinum ýmsu opinberu fyrirtækjum sé á hendi ríkisendurskoðunarfyrirtækis og í rauninni getur það þess vegna verið til trafala þegar Ríkisendurskoðun fer síðan í innri endurskoðun á fyrirtæki sem stofnunin er sjálf með ytri endurskoðun á.

Það er hægt að taka dæmi eins og um sorphirðu hjá stærsta sveitarfélaginu sem er ekki boðin út, þ.e. Reykjavíkurborg. Sorphirðan er í rauninni niðurgreidd að hálfu. Alveg þangað til fyrir skömmu var meira að segja fyrirtækjasorp greitt niður að hálfu af Reykjavíkurborg, þ.e. Reykjavíkurborg sótti sorpið til fyrirtækja og skattgreiðendur greiddu það niður, útsvarsgreiðendur, og þetta var gert í samkeppni við einkaaðila. Sem betur fer hefur þó borgin dregið sig til baka hvað þetta varðar. Eftir stendur að það er ákveðin samkeppni og það eru einkaaðilar, glæsileg fyrirtæki eins og t.d. Gámaþjónustan sem hefur verið í umhverfisverkefnum á sviðum umhverfismála um langa tíð, en þeir eru í rauninni komnir í samkeppni við sveitarfélögin og voru með ákveðna frumkvöðlastarfsemi sem þeir kynntu fyrir skömmu. Það varðar sérstakar sorptunnur sem sett er endurvinnanlegt sorp í sem síðan er flokkað hjá fyrirtækinu, t.d. pappír, plast og annað slíkt, sem er auðvitað afskaplega jákvætt.

Það er því miður af mörgu taka og við höfum fyrst og fremst áhyggjur af þeim sem eru smærri á markaðnum, það eru þeir sem eiga erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér í samkeppni við opinbera aðila og það er mjög mikilvægt að við séum vakandi fyrir því að stór og sterk opinber fyrirtæki og stofnanir traðki ekki þá minni niður.