132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

66. mál
[17:09]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar um samkeppnisstöðu fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga en sú sem hér stendur er einn þriggja flutningsmanna tillögunnar. Þingsályktunin kveður á um að viðskiptaráðherra verði falið að gera athugun á hvort og á hvaða sviðum opinberar stofnanir á vegum ríkis og sveitarfélaga eru í beinum samkeppnisrekstri við einkaaðila og að ráðherra skili Alþingi skýrslu fyrir 1. apríl 2006. Þessi þingsályktunartillaga var lögð fram snemma á haustdögum en hefur ekki komið til umræðu fyrr en nú.

Virðulegi forseti. Það er yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að draga úr ríkisrekstri. Í því augnamiði hefur ríkið markvisst dregið sig út úr samkeppnisrekstri síðasta rúma áratug sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við stjórnvölinn hér í landi. Hafa tugir fyrirtækja á vegum ríkisins verið einkavædd. Nú síðast var Síminn einkavæddur og seldur til aðila á markaði með miklum ávinningi fyrir ríkið sem gat nýtt sér peninga sem fengust fyrir sölu á fyrirtækinu til ýmissa brýnna verkefna, m.a. í velferðarmálum. Á sama tíma og fjölmörg fyrirtæki í ríkisrekstri hafa verið seld hefur hins vegar fjölgað þeim stofnunum ríkisins sem sinna stjórnsýsluverkefnum og öðrum samfélagslegum verkefnum sem talið er eðlilegt að séu fjármögnuð af ríkinu.

Oft eru stofnanir settar á laggirnar til að sinna afmörkuðum verkefnum sem síðan snúa upp á sig og auka þau að umfangi með tilheyrandi aukningu á kostnaði. Til þessara stofnana er ráðið vel menntað og metnaðarfullt fólk með víðtæka yfirsýn á þeim vettvangi sem það starfar á og það sér ákveðin tækifæri í að útvíkka starfsemi stofnunarinnar. Þetta þýðir fleira starfsfólk, aukið fjármagn til reksturs, aukin umsvif ríkisstofnana, en slík útþensla stofnana er oft kennd við Parkinsonslögmálið. Það er hins vegar ekki af einhverjum annarlegum hvötum sem þetta fólk stendur fyrir því að auka starfsemi sinnar stofnunar heldur er það oft krafa um sértekjur sem verður hvati fyrir stjórnendur að víkka út starfsemina.

Rekstur á vegum ríkis og sveitarfélaga hefur sökum umfangs síns mikil áhrif á starfsumhverfi og starfsmöguleika fyrirtækja í landinu. Þegar ríkisstofnun víkkar út starfsemi, hvort heldur af eigin hvötum, rúmri skilgreiningu á þeim lögum sem það starfar eftir eða vegna aukinna skyldna sem sett eru á stofnunina er veruleg hætta á að hún fari að rekast í horn starfsemi þar sem einkaaðilar hafa markað sér bás. Við slíkar aðstæður er ríkisstjórnin viljandi eða óviljandi komin í beina samkeppni við einkaaðila og farin að þrengja verulega að starfsskilyrðum og vaxtarmöguleikum fyrirtækisins. Allmörg dæmi eru um að ríkisstofnun undirbjóði þjónustu einkaaðila, bjóði þjónustu ókeypis undir merkjum tilraunaverkefnis eða jafnvel steli hugmyndum sem einkaaðilar hafa kynnt fyrir viðkomandi stofnun í trúnaði og stofnunin setur sjálf í gang. Mörg dæmi eru um slíkt. Ríkisstofnanir geta þetta í krafti þess að þær fá fjármagn til reksturs frá ríkinu og geta niðurgreitt þjónustuna eða alfarið staðið straum af viðkomandi verkefnum með ríkisfé.

Aðrar aðstæður sem blasa við í þessu sambandi er þegar ríkisstofnanir taka ákvörðun um að hætta útvistun verkefna en taka í þess stað til sín verkefni sem þær hafa áður gert samning við einkaaðila um að framkvæma eða semja við aðra ríkisstofnun um framkvæmd verkefna þó fjölmargir aðilar á markaði séu tilbúnir að takast á við verkefnin með samningum við viðkomandi stofnun þar um.

Það má segja, og ég tek undir með hv. þingmanni Guðlaugi Þór Þórðarsyni, að þetta er ekki í samræmi við innkaupastefnu ríkisins, eins og lýst var í ræðu hv. flutningsmanns.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni eru fjölmörg dæmi nefnd þar sem opinber fyrirtæki eru í beinni samkeppni við einkafyrirtæki, eins og hv. þingmaður Guðlaugur Þór Þórðarson hefur farið yfir í ræðu sinni. Á síðustu mánuðum hafa fleiri dæmi bæst við sem segja sambærilega sögu. Þar má m.a. telja fréttir sem bárust á haustdögum að sýslumannsembættin ætluðu að taka að sér ljósmyndun vegna útgáfu vegabréfa sem augljóslega var í beinni samkeppni við atvinnuljósmyndara. Þá birtist nýverið viðtal við Hrein Jakobsson, forstjóra Skýrr í Blaðinu sem er lýsandi fyrir þá þróun sem hefur orðið á síðustu árum. Skýrr var ríkisstofnun en var einkavædd fyrir nokkrum árum og er þjónustufyrirtæki á sviði upplýsingatækni. Í viðtalinu fjallar hann m.a. um að fyrirtækið hafi kært opinberar stofnanir til Samkeppniseftirlitsins vegna útboðsmála og segir m.a. eftirfarandi, með leyfi forseta:

„… okkur finnst þróunin á síðustu árum hafa verið mjög í þá átt að ríkisvæða. Menn einkavæddu Skýrr á sínum tíma en síðan finnst okkur ríkisvæðingin hafi vaxið á ný. Hún felst í því að tölvudeildir opinberra stofnana eru að vaxa mjög mikið. Hugbúnaðarverkefni fyrir ríkið eru yfirleitt boðin út en rekstur á tölvukerfum þeirra nánast aldrei.“ En fram kemur jafnframt í viðtalinu við forstjórann að einkafyrirtæki útvíkki í auknum mæli rekstur tölvukerfa fyrirtækja sinna og hann fullyrðir að Skýrr geti boðið opinberum stofnunum að reka tölvukerfi töluvert ódýrara og nefnir töluna 20%

Svo ég vitni áfram í forstjóra Skýrr þá segir hann einnig, með leyfi forseta :

„Þar fyrir utan höfum við mátt sjá á bak tekjum sem við höfðum áður eins og miðlun upplýsinga úr ökutækjaskrá og fasteignaskrá varðandi rafræn veðbókarvottorð. Þessi viðskipti eru nánast horfin frá okkur þó Skýrr hafi tekið þátt í að byggja upp markaðinn fyrir þessar upplýsingar. Það efast enginn um að ríkið eigi þessar upplýsingar en við teljum að það eigi ekki að dreifa þeim í samkeppni við fyrirtæki á markaði.“

Í viðtalinu kemur einnig fram að úrskurður samkeppnisyfirvalda gagnvart ökutækjaskrá var á þann veg að stjórnvöldum var bent á að draga sig út úr þeim rekstri þar sem verið væri að keppa við einkaaðila á þessum markaði.

Virðulegi forseti. Ég gerði fljótlega athugun á ákvörðun Samkeppniseftirlitsins á árinu 2005 sem birtist á heimasíðu stofnunarinnar. Það kemur í ljós að 25% ákvarðana eftirlitsins varða kærur einkaaðila gagnvart stofnunum ríkis eða sveitarfélaga, eða þrjú af tólf erindum sem Samkeppniseftirlitið úrskurðaði á síðasta ári. Þessi staðreynd styður það sem fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni og því sem ég og flutningsmaður hafa rætt hér. Jafnframt má benda á að í skýrslu Viðskiptaráðs Íslands frá nóvember 2005 kemur fram það mat ráðsins að af 240 ríkisstofnunum sem taldar voru megi telja að minnsta kosti 30 þeirra vera þess eðlis að um samkeppni þeirra geti verið að ræða við einkaaðila.

Tilgangur flutningsmanna með framlagningu þingsályktunartillögunnar sem hér er til umræðu er að fá yfirsýn yfir starfsemi á vegum ríkis og sveitarfélaga sem er í beinni samkeppni við einkaaðila. Með slíkar upplýsingar í höndunum er markvisst hægt að stefna að því að ríkið dragi sig út úr starfsemi sem er á samkeppnismarkaði og um leið vekja ríkisstofnanir til vitundar um skaðsemi þess að hamla þróun framsækinnar starfsemi á vegum einkaaðila. Það er von mín að þessi þingsályktunartillaga verði afgreidd hér úr nefnd við fyrsta tækifæri.