132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Staðbundnir fjölmiðlar.

138. mál
[17:31]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar um staðbundna fjölmiðla. Ég fagna henni og mér er heiður að fá að vera með í að leggja hana fram. Öllum ætti reyndar að vera ljóst mikilvægi héraðsmiðla. Birgir Guðmundsson við Háskólann á Akureyri hefur fjallað ítarlega um þetta og skilað nokkrum skýrslum um málið.

Varðandi mikilvægi héraðsmiðlanna nefnir hann þrjá punkta. Þeir eru mikilvægir fyrir staðbundin samfélög og samfélagsuppbyggingu almennt, eru sem sagt eins og lím fyrir samfélagið. Í öðru lagi hafa þeir gildi fyrir lýðræðislega umræðu í landinu, að sveitarstjórnirnar fái aðhald, að fólkið sem býr á svæðinu fái upplýsingar um það sem er að gerast. Í þriðja lagi nefnir hann lífsgæði almennt því þar er umfjöllun um mannlíf, íþróttir og listir í því samfélagi. Slíkir miðlar auka og bæta mannlífið og eru mikilvægt uppeldisatriði fyrir börn sem kynnast þessum fjölmiðlum.

Spurningin er: Hvernig er hægt að styðja þessa fjölmiðla? Þar má t.d. líta til Noregs. Birgir bendir á að frændur okkar í Noregi séu duglegir við að gefa út héraðsfréttablöð enda séu meira en 220 fréttablöð gefin út þar. Almennt skilyrði fyrir stuðningi er að ákveðið magn ritstjórnarefnis sé á móti hlutfalli auglýsinga. Byggðastefna á auðvitað að snúast um lífsgæði fyrir fólkið. Í byggðaáætlun er m.a. sagt að fjölmiðlar séu hluti af þeim lífsgæðum. Vilji menn á annað borð hafa fjölbreytni í fjölmiðlum þá er ekki nóg að horfa á hávöxnu trén, stóru landsmiðlana, heldur verður runnagróður, kjarrið, grasið og litlu blómin líka að fá að blómstra.

Með leyfi forseta, langar mig til að vitna í Jóhannes Sigurjónsson, ritstjóra Víkurblaðsins, sem gefið er út á Húsavík. Það hefur reyndar undirtitilinn „blað alls mannkyns“, hvorki meira né minna. En Jóhannes segir að Mogginn, DV, Þjóðviljinn, Tíminn og Alþýðublaðið séu auðvitað ekkert annað en héraðsfréttablöð. „Þau eru útgefin í Reykjavíkurhéraði, fjalla einkum um fréttir úr því héraði og brúka svo fréttir úr öðrum héruðum heimsins, svo sem Afganistan eða Eyjafirði, sem uppfyllingarefni.“

Þetta sagði Jóhannes í blaðinu sínu árið 1989. Gefin eru út 19 vikuleg héraðsfréttablöð og þrjú mánaðarleg. Sum þeirra hafa barist í bökkum, svo ekki sé meira sagt. Sem betur fer hefur tekist að bjarga mörgum þeirra. Ég vil t.d. nefna blaðið Norðurslóð sem gefið er út í Svarfaðardal og síðan Bæjarpóstinn á Dalvík. Þar fannst leið til að reka blöðin og þau blómstra núna. Reyndar hefur netið líka komið inn í þetta. Þau birta fréttir á netinu sem ná þá strax til alls landsins og auðvitað alls heimsins.

Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri gerði könnun á viðhorfi fólks og þeirra sem gefa út þessi blöð til að finna út eftirspurn eftir þessari nærumfjöllun og athuga hvort henni væri fullnægt. Þar kom ýmislegt merkilegt fram. Í raun eru ekki til neinar íslenskar rannsóknir í þessum málum en það er hægt að skoða margar erlendar rannsóknir sem gerðar hafa verið. Spurningin er: Skiptir þessi nærumfjöllun máli? Hvorki meira né minna en 97% í úrtaki stofnunarinnar sögðu að nærfréttir skiptu miklu máli. Það er alveg í samhljómi við það sem fram hefur verið haldið. Viðhorf ritstjóranna eru samhljóma við erlendar kannanir. Þetta byggir upp sjálfsmynd, ræktar hana, t.d. í umfjöllun um hluti sem skipta fólkið á svæðinu miklu máli, byggir upp ímynd út á við og fóðrar landsmiðlana. Við skulum ekki gleyma að stóru blöðin og sjónvarpsstöðvarnar taka oft upp fréttir sem birst hafa í þessum litlu miðlum. Það byggir upp jákvæða ímynd fyrir landsbyggðina. Þetta eykur lýðræðislega umræðu og þátttöku.

En hvers vegna er ekki meira nærefni? Fyrir því er náttúrlega takmarkaður rekstrargrundvöllur og efnisframleiðslan kostar mikla peninga. Þar komum við að þessari tillögu, sem verður vonandi til þess að hæstv. menntamálaráðherra skipi nefnd og skili þeirri skýrslu sem hér er um beðið. Afkoma héraðsfréttablaðanna er ekki mjög glæsileg. Þegar ritstjórar blaðanna voru spurðir hvort þeir væru ánægðir með afkomuna sagði meiri hluti þeirra að afkoman væri því miður ekki viðunandi. Þeir bentu t.d. á að það væri vegna ónógra auglýsingatekna. Þeir voru í flestum tilfellum ánægðir með fjölda áskrifenda en erfiðleikar voru við að ná inn auglýsingatekjum.

Ljóst er að eftirspurn eftir nærfréttum er meiri en framboðið. Framboðið takmarkast m.a. af litlu rekstrarlegu svigrúmi staðbundinna miðla. Af hverju er þetta ekki hluti af byggðastefnunni? Með auknum fréttaflutningi og útsendingum af landsbyggðinni aukast líkur á að almenningur fái skýra mynd af mannlífi í einstökum byggðarlögum. Þetta einskorðast reyndar ekki aðeins við héraðsfréttablöð. Í heimabæ mínum, á Akureyri, er t.d. rekin sjónvarpsstöð sem heitir Aksjón. Hún skilar ágætlega því hlutverki að birta okkur fréttir daglega. Því miður hefur rekstur þeirrar sjónvarpsstöðvar ekki gengið sem skyldi en ég vona að blómlegri og bjartari tímar séu fram undan fyrir staðbundna miðla því að ekki veitir af.