132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Horfur í loðnuveiðum.

[10:37]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það er mikið alvörumál að loðnan skuli ekki finnast. Við getum ekki fullyrt um hvort þar sé um brest eða hrun á stofninum að ræða eða hún hafi færst til á hafsvæðunum norður undan vegna m.a. breytinga á hitastigi og fleiru. Þess vegna tek ég undir þau orð hæstv. ráðherra að mikilvægt sé að efla rannsóknir og leit að loðnunni og þá jafnvel norðar í höfunum en við höfum hingað til gert.

Engu að síður er mikilvægt að hafa það í huga að loðnan er hluti af lífríki sjávarins. Þar spilar allt saman. Loðnan er aðalfæða þorsksins. Þess vegna þurfa rannsóknir að miðast að því að kanna heildstætt lífríki hafsins og jafnframt þarf nýting á þessum stofnum að skoðast heildstætt. Það er alveg fráleitt að vera að gefa afmarkaða veiðikvóta á hvern einstakan stofn því að allt spilar þetta saman sem heild og það er það sem við höfum lagt áherslu á í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, að fiskstofnarnir séu nýttir og gengið sé um þá á sjálfbæran hátt og horft til þessa heildarsamspils.

Hvað eftir annað hefur hér á Alþingi verið bent á að um hættuspil geti verið að ræða þegar veiðarfæri sem hafa verið notuð til loðnuveiða, þessi gríðarlega stóru flottroll, eru dregin um stór hafsvæði Ég spyr ráðherra: Er ekkert verið að taka á þessum málum, kanna raunveruleg áhrif þessara gríðarlegu flottrolla sem dregin eru um hafsvæðin og geta ógnað lífríkinu, frú forseti?