132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Horfur í loðnuveiðum.

[10:42]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa því yfir að svar hæstv. sjávarútvegsráðherra áðan olli mér mjög miklum vonbrigðum. Það er ekki rétt að ekki sé hægt að stunda loðnuleit af einhverju viti við Ísland án þess að hún sé veidd í leiðinni. Það er einfaldlega ekki satt. Það er vel hægt að stunda loðnuleit í dag án þess að menn þurfi að draga um leið í gegnum það litla sem finnst með stærstu veiðarfærum sem notuð eru í Norður-Atlantshafi um þessar mundir. Og það sem menn eiga að sjálfsögðu að gera er að stöðva þessar veiðar. Það á hreinlega að setja veiðibann strax á meðan við erum að átta okkur á stöðunni, á meðan við erum að átta okkur á því hvort eitthvað sé af loðnu eða ekki.

Virðulegi forseti. Loðnustofninn er það í mikilli lægð að við hugsanlega getum talað um hrun. Ég hef miklar áhyggjur af því að svo sé því það er svo margt sem er neikvætt í því sem hefur verið að gerast, því miður. Það er svo margt sem bendir í þá átt að full ástæða er til að fara með ýtrustu varkárni og varúð því að loðnan skiptir mjög miklu máli, ekki bara fyrir okkur mannfólkið í efnahagslegum skilningi heldur skiptir hún líka gríðarlega miklu máli í vistkerfinu í hafinu umhverfis Ísland. Ég hef margoft bent á þetta í ræðustól og á opinberum vettvangi. Okkur ber að fara mjög varlega í nýtingu á þeim mikilvæga fiskstofni. Okkur ber að endurskoða nýtingarstefnuna hvað varðar þennan fiskstofn.

Ég bendi til að mynda á að ef mjög lítið er af loðnu núna og það litla sem mun komast til hrygningar fram hjá þeim skipum sem eru að veiða það litla sem finnst, ef það kemst til hrygningar og hrygnir þá bendi ég á þá staðreynd að mjög mikið af ýsu er á grunnslóðinni allt í kringum Ísland. Ýsan mun leggjast á loðnuhrognin og éta þau upp. Það er ekki nóg með að hrygningarstofninn sé hugsanlega í sögulegu lágmarki heldur verður afránið á hrognunum mjög mikið, óvenjumikið og meira en verið hefur um mjög langan aldur vegna þess að það er svo mikið af ýsu á grunnslóðinni. Það mætti halda að menn við Skúlagötu 4 gætu ekki hugsað heila hugsun þegar vistfræði og fiskveiðistjórn er annars vegar.