132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Horfur í loðnuveiðum.

[10:52]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að ræða um loðnuna og stöðu hennar heldur um störf þingsins eins og gert er ráð fyrir undir þessum lið. Eins og þingheimur veit, og kom fram á Alþingi á miðvikudaginn, hefur stjórnarandstaðan eða minni hlutinn í menntamálanefnd óskað eftir því að lögð verði fram í nefndinni gögn sem varða samskipti íslenskra stjórnvalda við Eftirlitsstofnun EFTA. Hv. þm. Mörður Árnason gerði grein fyrir því hér á miðvikudaginn og umræða um það hefur farið fram m.a. í fjölmiðlum.

Á fundi nefndarinnar í gær voru þessi gögn lögð fram að beiðni hv. þingmanns og annarra stjórnarandstæðinga í nefndinni en þá bar svo við að þegar gögnin voru lögð fram vildu hv. þingmenn ekki taka við þeim, sem er dálítið sérstakt í ljósi þess að þeir óskuðu sjálfir eftir því að eftir þeim yrði leitað. (Gripið fram í.) Það kom fram að gögnin væru bundin trúnaði eins og 6. gr. upplýsingalaga gerir ráð fyrir og þær reglur sem gilda hjá Eftirlitsstofnun EFTA meðan mál eru til meðferðar. Þar fyrir utan bendi ég hv. þingmanni á það að skv. 4. gr. reglna um meðferð erinda til þingnefnda getur þingnefnd ákveðið að ósk sendanda erindis og að eigin frumkvæði að farið skuli með erindi að öllu leyti eða að hluta sem trúnaðarmál. (Gripið fram í.)

Síðan urðu þau undur og stórmerki á fundi nefndarinnar í morgun að stjórnarandstaðan féllst á að taka við plöggunum. Hún segir í yfirlýsingu: Við tökum við plöggunum nauðug viljug með skilyrði ráðherranna um almennan trúnað. Gögnin eru því komin fram þó svo að þeir mótmæli þeim skilaboðum að upplýsingar um samskipti ráðuneytanna við ESA séu bundin trúnaði eins og reyndar lög og reglur gera ráð fyrir. En ég vildi vekja athygli á því, frú forseti, að gögnin eru komin fram. (Gripið fram í.) Hv. þingmenn hafa haft tækifæri til að kynna sér þau og í ljósi þess er ekkert því til fyrirstöðu að frumvarp (Forseti hringir.) hæstv. menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið hf. verði tekið til meðferðar og umfjöllunar í þinginu strax á mánudaginn.