132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Umræða um störf þingsins.

[11:05]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég er formalisti og vil undir liðnum um fundarstjórn ræða um fundarstjórn forseta og hef gert það og farið að ýtrustu reglum þingsins, hygg ég, að minnsta kosti oftast. Ég sé að einn varaforsetanna, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, lítur til mín hvasst þegar ég segi þetta. En það er óhjákvæmilegt að minnsta kosti sögunnar vegna að gera athugasemd við þær athugasemdir hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar um fundarstjórn forseta að þingmenn stjórnarandstöðunnar í menntamálanefnd hafi gengið út. Staðreyndin er sú, forseti — þetta á auðvitað meira heima undir störfum þingsins af því að forseti er umsjónarmaður nefndarstarfsins — staðreyndin er sú að hv. þingmaður sem ég minntist á áðan, formaður nefndarinnar, boðaði til nefndarfundar kl. níu í morgun. Hann vissi þá, hann vissi ... (Gripið fram í: Það er ekki rétt.) Hann vissi af samtali við hv. þm. Einar Má Sigurðarson að sá þingmaður gæti ekki komist til þess fundar, en vani er og, ég hygg, ströng hefð að aukafundir séu því aðeins boðaðir að allir geti til þeirra komist. Ég hafði sagt Sigurði Kára Kristjánssyni í tölvupósti í morgun þegar ég náði ekki í hann í tvö símanúmer að ég yrði vant við látinn núna fyrir hádegi og gæti aðeins verið stutt á fundinum. Ég hygg að svipað hafi verið ástatt um hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur þannig að það var eðlilegt að þegar meginefni fundarins var lokið, tilkynningu formannsins um að hann samþykkti kröfu fjármálaráðuneytisins um trúnað, yfirlýsingar okkar um upplýsingalögin, um lögmæti þessarar trúnaðarkröfu og um það hvernig við ætluðum að haga okkur gagnvart þessu þegar því var lokið þá yfirgæfum við fundinn. Það voru mættir þarna tveir menn, annar starfsmaður menntamálaráðherra og hinn starfsmaður fjármálaráðherra. Við höfðum heyrt í þeim í gær og við heyrum í þeim þegar nefndin tekur málið formlega fyrir sem er eftir 1. umr., forseti. Er það ekki rétt hjá mér að mál komi til nefndar eftir 1. umr.? Við höfðum ósköp einfaldlega öðrum verkum að sinna og höfðum tilkynnt formanninum það. Ég skil ekki þessa miklu breytingu á þessum kurteisa og vissulega vörpulega hv. þingmanni, að hann skuli fara fram af mikilli hófsemd og með aðdáunarverðum stjórnunarstíl í menntamálanefndinni en umhverfast í oflátung í stóli Alþingis. Honum kann að þykja að hann þurfi að verja sig með einhverjum hætti eftir það að hafa látið fjármálaráðherra teyma sig, lögfræðingur að mennt, út í vitleysu sem ég held að hv. þingmaður sjái sjálfur vegna þess að hann er vel að sér í stjórnsýslu- og upplýsingalögum. En hann á ekki að láta það bitna á félögum sínum á þinginu og ég legg til að forseti taki þetta mál til sérstakrar athugunar, hvernig því er háttað.