132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Umræða um störf þingsins.

[11:22]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þá athugasemd verður að gera við fundarstjórn forseta að okkur þingmönnum voru kynntar reglur hér í fyrra um að nú væri búið að breyta undirbúningi að umræðum um störf þingsins þannig að það gæti ekki gerst svona sjálfkrafa og sjálfsprottið eins og áður heldur yrðu þeir sem hefðu hug á að ræða um störf þingsins að láta vita af því og það yrði svona þingflokksformannabandalag um þau mál þannig að allir vissu og gætu komið skilaboðum til þeirra manna sem þeir teldu æskilegast að tækju þátt í umræðunni nokkru áður en hún fer fram. Þetta gerðist ekki í morgun.

Ég ætla ekkert að þrasa meira um það en bendi forseta á það að brýna þá þessar reglur fyrir mönnum eða afnema þær því að það getur að ýmsu leyti verið mikill kostur að hafa þetta sjálfsprottið. Þá mæta þingmenn væntanlega alltaf við upphaf umræðunnar og ráðherrar líka eins og er samkvæmt þingsköpum.

Ég ætla svo ekki að elta ólar við orðhengilshátt Sigurðar Kára Kristjánssonar og Hjálmars Árnasonar hv. þingmanna. Það er rétt hjá Kolbrúnu að það var ekkert á það minnst á fundinum, nema þá í einhverju spjalli hugsanlega Sigurðar Kára Kristjánssonar við embættismennina, að það ætti að fara hér upp um störf þingsins í dag. Það er rangt hjá Hjálmari Árnasyni að erindi mitt út af fundinum hafi verið að senda þessa fréttatilkynningu, sem ég vissulega gerði, og tók mig svona u.þ.b. þrjár og hálfa mínútu. Erindi mitt út af fundinum var það að ég þurfti fyrir hönd Samfylkingarinnar að skila, og þarf enn að skila fyrir hádegi, pappírum til Lesbókar Morgunblaðsins um íslenska tungu og afstöðu okkar flokks til þýðingarmála. Því miður vannst ekki tími til þess áður að gera það og það er það sem ég er í miðjum klíðum að gera hér.

Ég vil svo segja enn um fundarstjórn forseta að það sem ég tel að eigi að vera á vefsíðu forseta núna fyrir helgina og á mánudaginn og fram eftir vikunni er það að athuga: Hvernig fóru þessi mál fram í nefndinni? Forseti er samkvæmt þingsköpum umsjónarmaður og yfirmaður nefndastarfs. Hvernig fóru þau fram í nefndinni? Var þessi trúnaðarkrafa ráðherrans eðlileg? Var sú tilvísun ráðherrans í upplýsingalög, 1. og 2. mgr. 6. gr. eðlileg? Er hún í samræmi við þá úrskurði sem við tiltókum sérstaklega, annan um GATT, hinn um ESA, frá úrskurðarnefnd upplýsingamála? Ég tel að svo sé ekki, ég tel að forseti verði að taka þetta fyrir.

Við höfum að vísu gengið undir það helsi, þingmenn stjórnarandstöðunnar í þessari nefnd, að taka við þessum pappírum sem trúnaðarskjölum á ákveðnum forsendum sem teknar eru fram í yfirlýsingunni, en það hafa aðrir þingmenn ekki gert. Og það er auðvitað fullkomin spurning sem forseti á að gá að hvort ekki sé freklega verið að ganga á rétt þingmanna í umræðu um afar mikilvægt mál, Ríkisútvarpið á Íslandi, með þessari kvöð og með þeirri þrælslund sem meiri hluti í menntamálanefnd hefur sýnt í þessu máli.