132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[12:09]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson gerði athugasemdir við nefndarálit meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar og taldi að skort hefði á efnisleg rök og vildi að gerð yrði grein fyrir efnislegri umræðu sem fór fram í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Það má því segja að með þessum athugasemdum mætti ætla að sjálfur gerði hv. þingmaður meiri kröfu til þess nefndarálits sem hann stendur fyrir þrátt fyrir að það standi varla almennilega undir því að hafa rakið efnislega umræðu með þeim hætti sem fór fram í nefndinni. Til dæmis segir í nefndarálitinu að lögfræðingar sem komu fyrir efnahags- og viðskiptanefnd hafi allir sem einn eindregið varað við því að fara þá leið sem ríkisstjórnin hyggst fara.

Ég kannast ekki við að allir lögfræðingar sem komu fyrir nefndina hafi haft þessi viðhorf og t.d. er ég nokkuð viss um að lögfræðingarnir Garðar Garðarsson, Baldur Guðlaugsson og Gunnar Björnsson kannist ekki við að hafa varað eindregið við að fara þessa leið né heldur get ég tekið undir að t.d. lögfræðingarnir Sigurður Líndal og Eiríkur Tómasson, sem sérstaklega voru kallaðir á fund nefndarinnar, kannist við að hægt sé að túlka orð þeirra með þeim hætti að þeir teldu víst, þ.e. hefðu vissu fyrir, að frumvarpið færi gegn ákvæðum stjórnarskrár um eignarrétt og jafnræði, eins og segir í nefndarálitinu. Þeir töluðu hins vegar um að fara þyrfti varlega, en þeir höfðu enga vissu fyrir því. Það var ekki eins og þeir væru að greina frá því hver þeirra niðurstaðan væri, að þetta væri öruggt. Þeir sögðu varlega, sterkari orð höfðu þeir ekki um það. Jafnframt er ekki hægt að draga þá ályktun af dómafordæmum sem voru dregin til efnahags- og viðskiptanefndar að þau styðji þessa fullyrðingu.